Það segir sig sjálft að ein ríkasta og voldugasta fjölskylda Evrópu, Rothschild fjölskyldan, skuli eiga kampavínshús en það eina sem vekur undrun er að það skuli ekki hafa gerst fyrr en árið 2009. Fjölskyldan hefur þó verið með puttana í héraðni í gegnum eignarhald á hinum ýmsu kampavínshúsum eins og til dæmis Ruinart sem þau seldu til LVMH (Moët Hennessy Louis Vuitton) árið 1963 og svo Champagne Henriot sem var selt árið 1988. Þetta Brut NV (non vintage) er gert úr 60% Chardonnay sem kemur frá Grand Cru svæðum í Côte des Blancs sem og Chardonnay frá Premier Cru svæðum. Hin 40% eru Pinot Noir sem kemur aðallega frá Verzenay, Ay, Mareuil-sur-Ay og Ambonnay.
Vínið er fölgult á lit með fínlegar loftbólur og opinn og ávaxtaríkan ilm í fyrstu. Gul og græn epli eru í aðalhlutverki ásamt perum en steinefnaríkur ferskleiki hangir á bakvið líkt og brioche brauð, sítrusávextir og hafrakex. Ilmríkt og aðlaðandi. Í munni er það nokkuð ferskt, þurrt og glettilega bragðmikið. Gul epli og brioche eru í aðalhlutverki ásamt þroskuðum perum. Ansi langt eftirbragð.
Okkar álit: Bragðmikið og alvörugefið kampavín. Falleg heild.
Verð 9.200 kr