Bailly-Lapierre Rosé Brut **** (87)

Það þekkja flestir Bailly-Lapierre Réserve Brut enda eitt af söluhærri freyðivínum vínbúðanna þetta árið. Hér erum við með spánýtt Crémant Rosé frá þeim sem er gert úr Pinot Noir og Gamay sem eru rauðvínsþrúgurnar sem eru mest notaðar í Búrgúndí og gefur stuttur maceration tími víninu fallega bleikan lit. Vínið er framleitt samkvæmt hefðbundnu aðferðinni og fær það 16 mánuði “sur lie” eða í flöskunni eftir seinni gerjun þar sem dautt gerið fær að blanda geði við vínið.

Vínið er fallega laxableikt með nokkuð krúttlegar loftbólur sem stíga hægt upp að yfirborðinu. Ilmurinn er opinn og eru nettir rauðir ávextir á borð við hindber, kirsuber og jarðarber mest áberandi en ljúfur möndlu og hafrakexilmur lúrir á bakvið. Nokkuð margslunginn ilmur sem kemur á óvart. Það er svo þurrt og nokkuð bragðmikið með góðan ferskleika. Jafnvægið er flott og er samspil ávaxtarins og gertónanna alveg til fyrirmyndar.

Okkar álit: Vel gert, nokkuð margslungið og gómsætur ávöxtur. kemur skemmtilega á óvart.

Verð 2.799 kr

You might be interested in …

Leave a Reply