Codorniu Classico Rosado Brut **** (85)

Codorniu er einn af þessum nöfnum sem hafa verið til í vínbúðunum hérlendis síðan ég man eftir mér. Það er svosem ekki bara bundið við hillur okkar vínbúða heldur er þetta gríðarstór víngerð á alþjóðlegum mælikvarða og ekki af ástæðulausu. Codorniu hafa verið brautryðjendur í framleiðslu Cava alveg síðan að Josep Raventós hóf að framleiða freyðivín samkvæmt hefðbundnu aðferðinni árið 1872 fyrstur manna. Hér erum við með Rosado frá þessum risa og er það framleitt úr Pinot Noir, Grenache og Trepat og fær það að dúsa “sur lie” í 9 mánuði áður en það er sett á flöskur og loks í sölu.

Vínið er fölbleikt á litinn og með nettar loftbólur. Ilmurinn opinn og nokkuð einfaldur með jarðarber og hindber í forgrunni ásamt vott af brauðgeri. Full einfalt að mínu mati og mætti vera örlítið meira í gangi þarna. Í munni er það þurrt og nokkuð bragðmikið með betri og safaríkari ávöxt en var að finna í nefi. Rauð ber, sítrus og kökubotn í bragði gera ansi mikið fyrir þetta vín en er eftirbragðið í styttra lagi.

Okkar álit: Einfalt og vantar smá karakter. Fallegur ávöxtur í bragði sem gerir mjög mikið fyrir það.

Verð 2.199 kr

You might be interested in …

Leave a Reply