Robert Mondavi Napa Valley Cabernet Sauvignon 2018 **** 1/2 (92)

Það þarf varla að kynna Robert Mondavi fyrir neinum sem kann að meta vín enda má með sanni segja að hann hafi gjörbreytt vínsenunni í Kalíforníu og í rauninni komið henni á kortið. Saga hans er gríðarlega áhugaverð og skín einskær ástríða fyrir frábærum vínum í gegnum hana alla allt frá því að hann hóf framleiðslu á sínum eigin vínum árið 1943 og þangað til að hann yfirgaf Mondavi víngerðina árið 2005. Á þeirri vegferð tók hann þátt í hinum ýmsum verkefnum um allan heim en mögulega er Opus One, samstarfsverkefni hans með Baron Phillipe de Rothschild eiganda Mouton Rothschild í Bordeaux, mesti skrautfjöðurinn í ferli hans. Hér erum við með blöndu af  87% Cabernet Sauvignon, 5% Merlot, 4% Petit Verdot, 3% Cabernet Franc, 1% Malbec og kemur ávöxturinn frá hinum ýsmu vínekrum Mondavi í Napa dalnum. Vínið fær svo að dvelja í eikartunnum í 16 mánuði áður en það er sett á flöskur.

Vínið er dimmrautt með fjólubláum taumum. Ilmurinn er galopinn, dimmur og ansi kröftugur. Sólber, nýmalað dökkristað kaffi, negull, kanill, leður, tóbak, og plómur leika lausum hala með léttum súkkulaðitón bakvið. Virkilega stór og margslunginn ilmur sem tekur miklum breytingum við öndun. Í munni er það kraftmikið en nokkuð mjúkt og með áberandi en þó ljúf tannín. Sólber, vanilla, kaffi og krydd í munni og endar langt eftirbragðið á þeim nótum.

Okkar álit: Dökkt, alvörugefið og margslungið vín. Þarf öndun til að rúnast aðeins. Flott vín!

Verð 7.899 kr

You might be interested in …

Leave a Reply