Robert Mondavi Carneros Pinot Noir 2019 **** 1/2 (91)

Carneros vínræktarsvæðið í Kalíforníu er eitt af þeim elstu í fylkinu og var fyrsti vínviðurinn gróðursettur þar snemma á 18. öld. Loftslag svæðisins er svalara en gengur og gerist í fylkinu og er það vindasamt og þokukennt, sem hentar Pinot Noir afskaplega vel en það er ekki fyrr en seint á 20. öldinni sem að víngerðarmenn átta sig almennilega á möguleikum svæðisins. Í dag eru framleidd hágæða Pinot Noir og Chardonnay vín á svæðinu en einnig eru framleidd frábær freyðivín á svæðinu úr þessum þrúgum. Hér erum við hins vegar með afksaplega vel gert Pinot Noir (100%) sem er afskaplega búrgúndarlegt en þá með sinn eigin karakter.

Vínið er dimmbleikt á litinn og afksaplega létt að sjá, mjög dæmigerðt Pinot Noir útlit. Ilmurinn er opinn og gefur mikið af sér. Fersk rauð ber eru í aðalhlutverki og þá aðallega súr kirsuber, létt sultuð hindber, jarðarber, granatepli, kóla, kanill, blóm og vottur af ristaðri eik í bakgrunninum. Léttur og ansi margslunginn ilmur sem boðar gott. Í munni er það létt og ferskt með smávaxin en þó lífleg tannín. Súru kirsuberin eru á sínum stað sem og kryddjurtir, léttir eikartónar ásamt vott af vanillu. Afskaplega góð samheldni í þessu víni.

Okkar álit: Dæmigert og virkilega vel gert Pinot Noir. Margslungið, ferskt og með góða byggingu.

Verð 5.999 kr

You might be interested in …

Leave a Reply