Smá um Rioja

Rioja er eitthvað sem nánast hvert einasta rauðvínsdrekkandi mannsbarn á fullorðinsaldri hér á landi, og reyndar víðar, þekkir vel til. Þetta er einn af þétt setnari rauðvínsflokkum í vínbúðum ríkisins og hefur líka verið með þeim söluhærri í mörg ár. Vinsældir Rioja eru svosem engin ráðgáta þar sem að þetta eru frábær vín en hvað er það sem gerir það að verkum að fólk sækir ítrekað í þessi vín? Kynnum okkar aðeins Rioja.

Landafræðin

Rioja héraðið er staðsett á Norður Spáni í um klukkutíma akstri frá Bilbao og liggur það meðfram Ebro fljótinu sem á uppruna sinn í Kantabríufjöllum norðan við héraðið. Vínræktarsvæðið skiptist svo í þrjú undirhéruð, Rioja Alta, Rioja Alavesa og Rioja Oriental sem áður hét Rioja Baja.

Vínræktarsvæðið Rioja (Samsett mynd http://www.riojawines.com)

Rioja Alavesa er nyrst og liggur nokkurn veginn alveg upp að kantabríufjallgarðinum sem þýðir að vínviðurinn er í yfirleitt ræktaður í meiri hæð en annars staðar eða í 400-1200m hæð. Jarðvegurinn er nokkuð kalkríkur og ásamt veðuráhrifum frá Biscayflóanum sem ná yfir fjallgarðinn ná þrúgurnar héðan að viðhalda ferskleika og ákveðinn fínleika sem skilar sér í vínin. Héðan kemur um 20% heildarframleiðslunnar.

Rioja Alta er talið besta vínræktarsvæði héraðsins, þó að Rioja Alavesa sé nú ekki langt undan, og eru mörg af bestu vínhúsum Rioja að finna hér og má nefna CVNE, Muga, La rioja Alta og Marques de Murrieta sem nokkur dæmi. Ekrurnar liggja flestar sunnan við fljótið Ebro, eða á hægri bakka þess, og liggja vínekrurnar í þónokkurri hæð líkt og í Rioja Alvesa. Jarðvegurinn er leirkenndari en í Rioja Alavesa sem ljáir vínunum meiri þykkt og mýkt. Um helmingur vínframleiðslunnar í Rioja kemur héðan.

Rioja Oriental, áður Rioja Baja, er austasta svæði héraðsins og liggur það nær sjávarmáli en hin tvö. Það er þar af leiðandi ögn heitara og kemur það niður á ferskleikanum í berjunum en á móti þrífst Garnacha nokkuð vel hér og hefur hún verið að gefa af sér framúrskarandi vín síðustu ár. Sögulega hefur Rioja Oriental þótt vera lakara vínræktarsvæði en í dag eru nýjir víngerðarmenn að koma sér fyrir og eru að gera virkilega spennandi hluti.

Þrúgur leyfðar

Það skal engann undra að um 90% af öllum vínvið í Rioja framleiðir rauðvínsþrúgur enda Rioja þekkt fyrir sín frábæru rauðvín.

Það eru 5 rauðvínsþrúgur leyfðar í Rioja vínum. Tempranillo er í algjöru lykilhlutverki í Rioja og sér hún um 88% af rauðvínsframleiðslu héraðsins. Garnacha kemur svo næst með um 7% og Graciano, Masuelo (Carignan í Frakklandi) og Maturana Tinta sjá svo um rest. Vert er að nefna að Graciano er að sækja í sig veðrið sem eru góðar fréttir því að hún getur, ef rétt er haldið á spilunum, gefið af sér stórkostleg vín.

Hvítvínsþrúgurnar eru nokkuð fleiri, eða 9 stykki. Viura og Tempranillo Blanco eru í lykilhlutverki þar og sjá þær um 80% af hvítvínsframleiðslu héraðsins. Aðrar þrúgur er Malvasía, Turruntés, Garnacha Blanca, Chardonnay, Maturana Blanca, Verdejo og Sauvignon Blanc.

Tempranillo (Mynd http://www.riojawines.com)

Crianza, Reserva og Gran Reserva

Rioja vínum er skipt í fjóra flokka eftir því hversu lengi þau hafa fengið að þroskast áður en þau eru sett á markað. Einnig fylgja flokkunum kröfur um samsetningu á þrúgum, uppruna og árgang svo nokkur dæmi sé nefnd. Flokkarnir eru eftirfarandi:

Génerico (hét áður áður Joven) er yngsta vínið og eru engar kröfur um tunnu- eða flöskuþroskun í þeim vínum heldur tryggir flokkunin aðallega uppruna og árgang. Génerico vín eru oft sett á markað vorið eftir uppskeru.
Crianza gerir kröfu um 24 mánuða þroskun þar sem 12 mánuðir verða að fara fram í eikartunnum og rest í flöskunni auk þess að gera kröfur um uppruna og árgang auðvitað.
Reserva gerir svo kröfu um 36 mánaða þroskun, þar af lágmark 12 mánaða þroskun í eikartunnum og restin í flöskum. Einnig er gerð krafa um uppruna og árgang.
Gran Reserva gerir loks kröfu um 5 ára þroskun og þurfa vínin að hafa legið í eikartunnum í að minnsta kosti 2 ár ásamt önnur 2 í flöskunni að lágmarki. Einnig er gerð krafa um uppruna og árgang.

Þessar reglur gefa framleiðendum örlítið listrænt svigrúm til að setja sinn stíl á vínið en á sama tíma hjálpar þetta neytendum að vita að hverju þeir ganga, sem er eitt af lykilatriðum í velgengni Rioja vína að mínu mati.

Hinir fjóru flokkar Rioja vína (Mynd http://www.riojawine.com)

Matur og Rioja

Þegar velja á mat með Rioja vínum þá þarf aðeins að staldra við og átta sig á því hvað maður er með í flöskunni. Crianza vín, með sinn bjarta og frísklega ávöxt, getur auðveldlega ráðið við flóknari og bragðmeiri rétti á meðan að þroskað og fallegt Gran Reserva þarf á nettari réttum að halda. En eitt er víst, kjöt á einstaklega vel við í flestum tilfellum – spurningin er bara hvernig kjöt. Crianza og Reserva vín eiga alveg fullt erindi í fallegar nautasteikur og þó svo að sum Gran Reserva vín eigi líka erindi með nauti þá finnst mér þau persónulega henta íslenska lambinu betur. Grillað lambaribeye og vel þroskað Gran Reserva er t.d. ljúffengt svo ekki sé meira sagt.

Serrano- og Ibericoskinka er reyndar líka ljúffengt með Riojavínum og finnst mér oft betra að hafa góðan ávöxt í víninu þannig að ég á það til að hallast að Crianza. “Vestrænir” Indverskir réttir eru svo eitthvað sem passar glettilega vel með Crianza vínum.

You might be interested in …

1 Comment

Leave a Reply