Altos Ibericos Crianza 2017 **** (88)

Torres fjölskyldan hefur verið eitt af leiðandi öflum í víngerð á Spání síðustu áratugi og það sem er áhugavert er að það er ekki fyrr en árið 2005, 135 árum eftir stofnun víngerðarinnar, sem þau láta til skarar skríða í Rioja. Frumburðurinn var Altos Ibericos og er nafnið dregið af Alto Otero sem liggur ekki langt frá víngerðinni í Rioja Alavesa. Vínið er gert í nýtískulegum stíl þar sem að er bara notast við Tempranillo og fær það 12 mánuða dvöl í eikartunnum, bæði frönskum og amerískum, áður en það fær svo í aðra 12 mánuða dvöl í flöskum.

Vínið er rúbínrautt á lit og er það opið og ansi ilmríkt. Þéttur kirsuberjailmur tekur á móti manni í fyrstu ásamt lófafylli af kryddum sem spila vel á móti ávextinum. Tunnan kemur svo hægt og rólega fram með sínum sígildu vanillu- og kókostónum og svei mér þá ef það er ekki smá plóma þarna bakvið. Í munni er það þétt og býsna kraftmikið með góð tannín og ágætis sýru til að styðja við bakið á víninu. Plómur, kirsuber, kaffi, kanill og vanilla eru í farabroddi í bragði og leggja grunninn að ansi bragðgóðu víni.

Okkar álit: Nútímalegt, þétt og alvörugefið Crianza. Vandað vín.

Verð 2.791 kr

You might be interested in …

Leave a Reply