Conde de Valdemar Gran Reserva 2011 **** 1/2 (90)

Bodegas Valdemar á sér langa sögu sem nær aftur til ársins 1889 þegar stofnandi víngerðarinnar, Joaquín Martínez Bujanda, hóf framleiðslu á vínum í smábænum Oyón sem er rétt norðan við Logroño. Í dag er fjórða og fimmta kynslóð fjölskyldunnar við stjórnvölin og er það Jesús Martínez Bujanda ásamt syni hans sem eru þar í aðalhlutverki. Víngerðin á einhverja 300 hektara af vínvið sem er allur í Rioja Alavesa og auðvitað er telur Tempranillo flesta af þeim hekturum en skemmtilega nokk þá er ansi hátt hlutfall af hvítum þrúgum ræktaðar. Hér erum við þó með Gran Reserva sem hefur fengið sína lögboðna tunnuþroskun upp á 36 mánuði (lögboðin tunnuþroskun er reyndar 24 mánuðir fyrir Gran Reserva) ásamt 24 mánuða afslöppun í flöskum áður en það er sett á markað.

Vínið er rústrautt á litinn með opinn og þroskaðan ilm af þurkkuðum ávöxtum á borð við döðlur, rúsínur og sveskjur ásamt krydduðum kaniltón og ljúfri vanillu, kókos og loks dass af anís. Léttur oxunartónn sem hverfur fljótt og fram kemur merkilega ferskur ilmur miðað við aldur og fyrri störf. Í munni er það miðlungs bragðmikið með flotta sýru og fínleg tannín sem nánast bráðna á tungunni. Þroskaðir tónar, þurrkaðir ávextir líkt og í nefi og eiginlega lýgilega glæsilegur ávöxtur. Þroskað en þó hellingur eftir af líftíma þessa víns.

Okkar álit: Þroskað en á sama tíma líflegt og vel byggt vín. Mjög flott Gran Reserva.

Verð 4.690 kr

You might be interested in …

Leave a Reply