Marques de Murrieta var stofnað árið 1852 af Luciano Francisco Ramón de Murrieta, fyrrum hermanni, sem hafði nokkrum árum áður flúið til London undan borgarastyrjöld á Spáni. Þar kynntist hann Bordeaux vín og dreif hann sig til Frakklands til að kynna sér leyndardóma þessa frábæru vína. Með þá vitnesku og reynslu snéri hann loks tilbaka til Spánar og stofnaði víngerð sunnarlega í það sem heitir í dag Rioja Alta, nálgæt borginni Logrono. Hér erum við með hið glæsilega Reserva 2016 sem er að mestu leiti Tempranillo (87%) eins og venjan er í Rioja en restin er blanda af Graciano (6%), Mazuelo (5%) og Garnacha (2%). Ávöxturinn kemur frá Ygay ekru víngerðarinnar sem liggur í kringum hinn glæsilega Ygay kastala. Vínið fær hefðbundna “Reserva meðferð” og fær að þroskast í 16 mánuði í amerískum eikartunnum, sem eru 4 mánuðum meira en lágmarkið segir til um.
Vínið er fallega dimmrautt á litinn með léttbleika tóna. Ilmurinn er opinn og kröftugur með kryddaðan ávöxt í fyrstu ásamt ljúfri vanillu á bakvið. Eftir smá öndun koma fram fáránlega safaríkir ávextir á borð við kirsuber og jarðarber fram ásamt kókós, kanil, fersku tóbaki, leðri og smá súkkulaði. Ótrúlega samofinn ilmur sem fær mann gjörsamlea til að gleyma öllu um einangrun og sóttkví. Í munni er það nokkuð bragðmikið með frábæra sýru og fínleg en þó vel áþreifanleg tannín. Sami geggjaði ávöxtur og var að finna í nefi (sem betur fer) ásamt léttri vanillu, kókós og krydd í lokin. Virkilega frábært vín sem, þó svo að það sé yndislegt núna, hefði sennilega gott af smá geymslu eða klukkutíma dvöl í karöflu. Drekkið með lambaribeye eða álíka bragðmiklu lambakjöti.
Okkar álit: Geggjað Reserva frá einni bestu víngerð Rioja. Margslungið, safaríkt og laaaangt. Gjafaverð á þessu.
Verð 3.990 kr