Það er ekkert annað hægt en að dást að hugsjón og þrautseigju hjónanna Dan og Margaret Duckhorn, sem stofnuðu Duckhorn Vineyards árið 1976. Alveg frá byrjun voru þau staðráðin í að einblína á Merlot þrátt fyrir að flest víngerðarhús Kaliforníu notuðu þrúguna í besta falli til íblöndunnar í þeim tilgangi að mýkja Cabernet Sauvignon vín. Þessi vegferð þeirra hefur ekki bara haldist nokkurn vegin óbreytt heldur hefur hún gert það að verkum að Duckhorn víngerðin er leiðandi, ef ekki einn albesti, framleiðandi Merlot vína í Norður Ameríku. Þetta vín er þó ekki alveg hreint Merlot þó hún sé 80% blöndunnar en restin er að mestu leiti Cabernet Sauvingon (16%) og svo smotterí af Petit Verdot, Cabernet Franc og Malbec. Vínið fær svo að þroskast í 15 mánuði í eikartunnum og eru næstum helmingur þeirra nýjar franskar eikartunnur.
Vínið er rúbínrautt á litinn og ansi opið. Brjálæðislega djúsí og nánast sultuð kirsuber, sólber, bláber og hindber stökkva upp úr glasinu í fyrstu en fljótlega kemur eikin og setur sitt mark á ilminn með kaffi, kakó, létta vanillu og smá kókóstón í lokin. Eftir smá öndun bætist blómlegur keimur við í partíið og setur svolítið punktinn yfir i-ið. Djúpur og afskaplega margslunginn ilmur. Það er svo ansi þétt og bragðmikið í munni með nokkuð áþreifanleg en mjúk tannín og góða sýru. Dökk ber eru í aðalhlutverki í bragði ásamt dökku súkkulaði, kaffi, vanillu og bökunarkryddum. Gríðarlega langt eftirbragð og frábær bygging. Algjör negla! Mæli með að umhella þessu víni..
93