Merlot hefur fengið afskaplega mikið last síðustu ár eftir að Paul Giamatti sparaði ekki fúkyrðin til að lýsa Merlot vínum í myndinni Sideways og varð ein þekktasta lína myndarinnar sem dæmi “I’m not drinking any Fu*#ing Merlot”. Það sorglega var að þrátt fyrir að leika yfirlætislegan vínsnobbara þá hafði hann nokkuð til síns máls enda var markaðurinn, sérstaklega sá ameríski, yfirfullur af óvönduðum, sultuðum og sæteknndum Merlot vínum. En í dag hafa vínframleiðendur rifið sig í gang og eru flest Merlot vín vel þess virði að prófa. Hér er eitt slíkt dæmi en þetta kemur frá Columbia Crest sem er staðsett í Washington fylki. Vínið er nánast 100% Merlot en þó er snefilmagn af Cabernet Sauvignon í því en ekki nóg til þess að víngerðin sjái ástæðu til að tilgreina það sérstaklega. Vínið fær svo að þroskast í 14 mánuði í blöndu af amerískum og frönskum eikartunnum.
Vínið er rúbínrautt á litinn og ilmurinn ilmurinn opinn og nokkuð þykkur. Ávöxturinn leikur lykilhlutverk og er hann í sætari/þroskaðri kantinum en þar eru aðallega sólber og plómur ásamt sólberjalaufum, fjólum, hindberjum, krydduðum tónum og dass af vanillu. Afar vinalegur ilmur. Það er svo þétt og mjúkt í munni með ljúf tannín sem spurja ekki margra spurninga og ágætis sýru. Búttað og ferskt ef það meikar sens. Ávöxturinn aftur í sætari kantinum og eru sömu sólber og plómur í bragði ásamt bláberjum. Sæmilega langt og endar það á krydduðum vanillutónum frá tunnunni.
86