Nei takk. Ég drekk ekki Merlot!

No, if anyone orders Merlot, I’m leaving. I’m not drinking any f@%!ing Merlot!”. Þetta sagði Miles Raymond, sem Paul Giamatti lék svo eftirminnilega í myndinni Sideways, sem kom út í október 2004. Myndin fjallar um ferðalag tveggja miðaldra félaga til Kaliforníu, þar sem þeir gera mis gáfulega hluti, en meðal þeirra eru tíðar vínsmakkanir. Annar þeirra, Miles, er gramur vínsnobbari, sem hefur einstaklega sterkar skoðanir á vínum og er sérstök andúð á Merlot meðal þeirra skoðana, meðan hann lofsamar hina “stórkostlegu” Pinot Noir. Margir vilja meina, að þessi mynd hafi haft ansi neikvæð áhrif á sölu Merlot í Bandaríkjunum, sem og víðar, og á sama tíma haft öfug áhrif á Pinot Noir. En er það raunveruleikinn? Skoðum það aðeins.

Töluleg nálgun

Byrjum á tölulegum staðreyndum. Í rannsókn, sem Steven Cuellar, hagfræðiprófessor við Sonoma State háskólann í Bandaríkjunum, gerði á svokölluðum “Sideways áhrifum” árið 2008  kemur nokkuð skýrt fram, að áhrifin voru einhver. Besta dæmið er sennilega að seldir kassar af Merlot vínum í Bandaríkjunum dróst saman eftir að myndin kom út og á sama tíma jókst salan á Pinot Noir, hraustlega. En áhrifin á sölu Merlot, þó þau hafi verið neikvæð, voru ekki eins mikil og margir hafa haldið og langt frá því að hafa drepið Merlot, eins og oft er talað um. Á sama tíma er hægt að sjá, að fjöldi seldra kassa af Pinot Noir tekur hraustlegt stökk eftir að myndin kom út og mætti alveg taka undir þær raddir að myndin hafi verið gríðarleg lyftistöng fyrir Pinot Noir, sem hafði reyndar verið á uppleið fyrir komu myndarinnar.

Það er einnig áhugavert að sjá verðáhrifin. Þar kemur í ljós að strax eftir að myndin kemur út seint á árinu 2004 verður ansi snörp verðhækkun á verði Pinot Noir vína, sem virðist ná einhverjum stöðugleika þegar rannsóknin er gerð 2008. Hins vegar taka verð á Merlot vínum góða dýfu eftir að myndin kemur, eitthvað sem hafði þó byrjað nokkru fyrr, en ef eitthvað er að marka rannsóknina þá ýtti myndin enn frekar við þeirri dýfu. Fyrir alvöru nörda, sem og aðra áhugasama, er hægt lesa rannsóknina í heild sinni hér.

Þróun á magni og verði Pinot Noir og Merlot (Mynd Steven Cuellar)

Fátt er svo með öllu illt…

Þó svo að tölurnar ljúgi ekki, er alltaf hollt að líta á málið frá öllum hliðum og jafnvel þó að salan á Merlot hafi dregist saman, þá eru ekki allir á því, að það hafi verið alslæmt. Alex Ryan, framkvæmdastjóri Duckhorn víngerðarinnar í Napa dalnum, er einn þeirra. Hann vill meina, að þó svo að fórdómarnir séu vissulega til staðar enn þann dag í dag hafi Sideways í raun bjargað Merlot. Skoðum það aðeins betur. Þegar Merlot byrjaði að verða vinsæl rétt fyrir aldamótin, vildu allir stökkva á vagninn. Framleiðendur gróðursetttu Merlot alls staðar, oft án þess að huga neitt að því hvort að jarðvegurinn eða loftslagið hentaði sérstaklega, því að þeir þurftu þess ekkert endilega. Merlot er nefnilega ekki vandlát á umhverfi og þrífst hún þokkalega ansi víða og getur gefið af sér mikinn ávöxt og þar af leiðandi mikið vín. En oft voru gæði sniðgengin á kostnað magns og var gríðarlegt magn slappra Merlot vína framleitt á þessum tíma.

Alex Ryan og Duckhorn Merlot Napa Valley, sem fæst í vínbúðunum (Myndir http://www.duckhorn.com)

Alex vill meina, að Sideways hafi sparkað Merlot rækilega í afturendann og í kjölfar myndarinnar hafi þeir, sem framleiddu óvönduð Merlot vín, ekki getað selt vínin sín og þar af leiðandi farið að gróðursetja aðrar tegundir. Margir þurftu af yfirgefa Merlot vagninn, sem áttu kannski ekki að vera á honum til að byrja með. En það stoppaði ekki þar, því þeir sem framleiddu vönduð Merlot vín, eins og t.d. Duckhorn, þurftu að vanda sig enn meira og í kjölfarið urðu til enn betri Merlot vín.

En hann tekur þó fram að brekkan hafi verið nokkuð aflíðandi síðan í árslok 2004 og vegferðin að bættum gæðum ansi löng. Enn í dag mætir hann fordómum gagnvart Merlot þegar hann kynnir vínin sín, en þó þurfi ekki nema smá útkýringu á ágæti þrúgunnar sem og lítið smakk af vínunum hans til að snúa fólki. Sem betur fer.

Tökum þetta saman í eina setningu. Já, Sideways hafði gríðarlega áhrif á sölu Pinot Noir og líka Merlot – en áhrifin á hina síðarnefndu hafa ekki verið jafn mikil og margir vilja meina. Sumir halda því jafnvel fram að myndin hafi komið Merlot til bjargar. Ok, þetta voru tvær setningar en hvað með það! Ég mæli með að þið leggið ykkar dóm á þetta með að smakka að minnsta kosti eftirfarandi vín.

Duckhorn Merlot Napa Valley 2017

Það er ekkert annað hægt en að dást að hugsjón og þrautseigju hjónanna Dan og Margaret Duckhorn, sem stofnuðu Duckhorn Vineyards árið 1976. Alveg frá byrjun voru þau staðráðin í að einblína á Merlot þrátt fyrir að flest víngerðarhús Kaliforníu notuðu þrúguna í besta falli til íblöndunnar í þeim tilgangi að mýkja Cabernet Sauvignon vín.…

Clos de Gat Har’El Merlot 2017

Það skal viðurkennast að ég var lengi að velta því fyrir mér hvort að ég ætti að birta þennan dóm þar sem að uppruni vínsins er umdeildur. Að lokum var það ofan á að Vínsíðurnar snúast fyrst og fremst um vín og í raun ekkert annað þannig að það væri gegn okkar tilgangi að birta…

Gerard Bertrand An 1130 Cité de Carcassonne Merlot 2020

Ég á ennþá eftir að smakka vín frá Gérard Bertrand sem mér líkar ekki við og ég hef smakkað þau nokkur. Þetta eru kannski ekki margslungnustu vín sem eru á markaðnum eða vín sem fær nördana til að iða í skinninu heldur eru þetta vín sem eru aðgengileg, safarík og gríðarlega vinaleg. Svolítið eins og…

Columbia Crest Grand Estates Merlot 2018

Merlot hefur fengið afskaplega mikið last síðustu ár eftir að Paul Giamatti sparaði ekki fúkyrðin til að lýsa Merlot vínum í myndinni Sideways og varð ein þekktasta lína myndarinnar sem dæmi “I’m not drinking any Fu*#ing Merlot”. Það sorglega var að þrátt fyrir að leika yfirlætislegan vínsnobbara þá hafði hann nokkuð til síns máls enda…

Lamothe Vincent Merlot Cabernet Franc Reserve 2018

Við höfum lengi verið miklir aðdáendur Lamothe Vincent Héritage og hefur það vín verið tíður gestur á námskeiðum hjá okkur enda afskaplega vel heppnað vín árgang eftir árgang. Hér erum við með nýjung á hillum vínbúðanna og er þetta þónokkuð frábrugðið hinu skemmtilega Héritage að því leiti að þetta er blanda af Merlot (80%) og…

Chateau Goumin Rouge 2018

Chateau Goumin kemur úr smiðju hins goðsagnakennda André Lurton, eða réttara sagt samsteypunni Les Vignobles André Lurton, sem á fjöldann allann af víngerðum í Bordeux eins og t.d. Chateau Bonnet sem hefur átt sitt hillupláss í vínbúðunum í mögr ár. Goumin er hnífjöfn blanda af Merlot og Cabernet Sauvignon og kemur ávöxturinn frá nokkrum af…

You might be interested in …

Leave a Reply