6 mýtur um vín sem þarf að leiðrétta

Í gegnum árin hef ég haldið óteljandi mörg vínnámskeið. Þar hef ég hlotið þau forréttindi að fá að deila því sem ég hef lært með alls konar fólki sem hefur brennandi áhuga á vínum og verð ég að viðurkenna, að það er eitt af því skemmtilegasta  sem ég geri. Á þessum námskeiðum hef ég fengið fjöldan allan af spurningum, sem snúa að misskilningi, eða mýtum um vín sem mig langar  að deila með ykkur kæru lesendur. Hér eru 6 mýtur sem ég verð að leiðrétta!

 1. Það er nauðsynlegt að opna flöskuna og leyfa henni að anda í 20-30 mínútur, áður en hún er borin til borðs.
  Kolrangt! Þegar við viljum að vín andi þá er meiningin að koma súrefni í snertingu við vínið, en þegar flaska er opnuð og látin standa er einungis yfirborð vínsins í flöskuhálsinum, sem nær einhverri snertingu við súrefni. Ég er enginn stærðfræðingur en ég myndi giska á að það yfirborð nái ekki einu sinni 1% af víninu, en restin kemst aldrei í snertingu við súrefni á þessum 20-30 mínútum. Ef vínið þarf að anda, og það er yfirleitt stórt ef, þá er langbest að umhella því í karöflu og láta það anda þar. Hins vegar er þessi mýta ekki alveg gagnslaus, því að þetta er afbragðs afsökun til að opna flöskuna og fá sér eitt lítið glas á undan öllum hinum.
 2. Rauðvín skal drekkar við stofuhita.
  Það skal viðurkennast, að einhvers staðar í heiminum er þessi regla góð og gild. En ekki á Íslandi, þar sem kynding heimila kostar afar lítið miðað við önnur lönd. Þessi “regla” á rætur sínar að rekja til 19. aldar Evrópu, þar sem að kynding heimila var almennt ekkert sérstök og stofuhiti kannski nær 18-19 gráðum, sem er einmitt tilvalið hitastig fyrir bragðmeiri rauðvín. Í dag er hitastig íslenskra heimila nær 22-23 gráðum, sem er allt of heitt fyrir flest, ef ekki öll rauðvín. Það er mín reynsla, að vín sem fara yfir 19-20 gráður vilja of verða stálkennd, flöt og óspennandi og mæli ég því eindregið með að setja flöskur, sem eru við stofuhita inn í kæli í hálftíma til klukkutíma áður en þær eru opnaðar. Það mun gera gæfumuninn, lofa.
 3. Súlfíð valda hausverk
  Það er engu líkara en að súlfíð og alkohól hafi einhvern tímann stofnað til veðmáls og súlfíð tapað því veðmáli, því flest allt sem alkohól gerir af sér lendir á ábyrgð súlfíða. Súlfíð verður til við gerjun og innihalda því öll vín eitthvað af súlfíð, þó vissulega sé magnið eitthvað minna í lífrænt ræktuðum vínum og náttúruvínum. Ef við horfum á matvæli eins og t.d. þurrkaða ávexti og sultu, þá innihalda þau meira súlfíð en vín og það virðist enginn vera að kvarta undan hausverk af þeirra völdum. Við erum ekkert endilega á því að það sé þessi 12-15% af rúmmáli vínsins sem kallast alkohól, sem gætu framkallað hausverkinn, nei – við skulum kenna snefilmagninu af súlfíð um.
 4. Þykkari tár þýða betri vín
  Það eru greinilega mjög margir áhugasamir um tárin í víninu, þ.e.a.s. taumarnir, sem leka niður hlið glassins eftir að það er búið að þyrla því aðeins í glasinu, því ég fæ þessa spurningu afskaplega oft. Þó að tárin gefi ágæta vísbendingu um áfengis- og sykurinnihald vínsins, þá hafa þau því miður ekkert með gæði vínsins að gera og mæli ég eindregið með að pæla miklu frekar í ilm og bragði frekar en tárum.
 5. Vín með skrúfutappa er verri en vín með korktappa
  Við skulum afskrifa þessa mýtu sem snobb fortíðarinnar og er það í raun ótrúlegt hvað þessi mýta hefur orðið langlíf. Skrúfutappar komu fyrst á markað í lok sjötta áratugarins en mættu mikilli mótspyrnu sem varði í nokkra áratugi. Það er ekki fyrr en um aldamótin, sem að framleiðendur sem og neytendur virðast taka skrúfutappann að hluta til í sátt. Báðir tapparnir hafa sína kosti og galla, en það er alls ekki rétt að gæðin séu verri í vínum með skrúfutappa.
 6. Vín verða betri með aldrinum
  Það væri hægt að útvíkka þessa mýtu, því ég hef oft verið spurður hvort að öll vín verði betri með aldrinum. Hvorugt er satt, en af mismunandi ástæðum. Í fyrsta lagi, eru fæst vín gerð til að þola geymslu af einhverju ráði og eru í raun best innan nokkurra ára. Í öðru lagi, þá er þetta allt saman spurning um smekk. Einhverjum kann að finnast ungleg og ávaxtarík vín góð, meðan að öðrum finnst þroskaðir tónar sem myndast í vinum með geymslu algjört nammi, þannig að það er afskaplega erfitt að alhæfa nokkuð hér. Réttara væri að segja, að vín verða öðruvísi með aldrinum, það er síðan  persónubundið hvort að fólki líki sú   breyting.

You might be interested in …

Leave a Reply