Escada Touriga Nacional 2019

Ég hef lengi sagt að bestu kaupin á vínum séu á portúgölskum vínum og aldrei þessu vant virðist vera að Íslendingar hafi fattað það – að einhverju leyti allavega. Við höfum verið að sjá aukningu í neðri hluta verðlistans síðustu ár og er að finna ansi mörg frambærileg vín þar sem er óhætt að mæla með. Hins vegar vantar svolítið upp á vín úr efri hluta verðlistans sem er mikil synd því þar eru, að mínu mati, lang bestu kaupin. Escada Touriga Nacional er eitt af þessum vínum sem koma úr neðri hlutanum en er skínandi dæmi og vinaleg og vel gerð vín á frábæru verði. Það er alfarið gert úr hinni portúgölsku Touriga Nacional og kemur ávöxturinn frá Quinta de Porto Franco vínekrunni sem er í eigu DFJ Vinhos. Ekran er staðsett um 60km norðan við Lissabon, innan landamæra Lisboa vínræktarhéraðsins, og nýtur ekran góðs af því að vera í nálægð við Atlantshafið.

Vínð er afskaplega dökkt yfirlitum, dimmrautt á litinn með dimmfjólubláum taum. Í nefi er það galopið og ilmurinn nokkuð öflugur með krækiber, bláber og sólber í forgrunni og allt saman á mörkum þess að vera sultað. Ef vel er leitað vottar líka fyrir dass af fjólum, lyngi, krydduðum tónum, saltlakkrís, súrum kirsuberjum og lavender en það er allt saman í algjöru aukahlutverki. Mjög aðlaðandi ilmur. Í munni er það bragðmikið, þétt og nokkuð sætt með lítið áþreifaneg tannín. Eftirbragðið er í styttra lagi og eins og ilmurinn lofaði góðu þá varð ég fyrir smá vonbrigðum með það sem fylgdi í kjölfarið. Ætti þó að fara vel með bragðmiklum grillmat eins og BBQ grísarif eða bara góðum bragðmiklum borgara.

Verð: 2.350 kr
Okkar álit: Aðlaðandi ilmur en smá sætt og þykkt í munni. Aðgengilegt og einfalt.
3.5

(84)

You might be interested in …

Leave a Reply