Joseph Drouhin er einn af virtari vínframleiðendum Búrgúndar og raunar Frakklands ef út í það er farið. Drouhin framleiðir vín frá u.þ.b. 90 AOC, allt frá rándýrum Grand Cru frá Búrgúndi og Chablis “niður” í einföldum og auðdrekkanlegum Pinot Noir blöndum sem eru ræktaðar hér og þar innan Búrgúndarrammanum. Árið 1988 stofnaði Drouhin víngerðina Domaine Drouhin Oregon sem er orðin nokkuð vel virt í Oregon fylki í Bandaríkjunum og síðast en ekki síst framleiðir Drouhin vín í Beaujolais, elsku Beaujolais. Þetta vín kemur frá hinum granítríku Morgon ekrum í Norður Beaujolais sem gefur af sér einhver kraftmestu og langlífustu vínum héraðsins og að mínu mati eitthvað af bestu kaupum í vínum í dag. Vínið er auðvitað gert 100% úr Gamay eins og öll önnur rauðvín Beaujolais.
Vínið er nokkuð þétt að sjá með unglegan fjólubláun geislabaug. Ilmurinn er galopinn og stökkva bláber, krækiber, svört kirsuber og plómur á þig í byrjun en með smá öndum kemur fram hvítur pipar, fjólur, lakkrís og granatepli. Þetta er djúpur og dökkur ilmur sem er gríðarlega dæmigerður fyrir þessa misskildu en dásamlegu þrúgu. Í munni er það nokkuð þétt með nokkuð áberandi tannín og bjarta sýru sem lyftir víninu upp. Ávöxturinn er að sama skapi bjartur og líflegur en þó nokkuð þéttur með bláber, hindber og kirsuber í aðalhlutverki. Mild krydd fá svo að vera með í lokin. Frábært vín í alla staði sem ég mæli með að sé drukkið við 13-14 gráður. Vínið smellpassar með charcutterie bökkum, get vottað það, en það á alveg eins heima með góðu lambi beint af grillinu.
(90/100)