Chateau de la Chaize Morgon 2019

Morgon er stærstur af hinum 10 Cru Beaujolais, sem eru bestu vínræktarsvæði Beaujolais. Jarðvegurinn einkennist af granít og blágrýti sem gerir það að verkum að vínviðurinn þarf að hafa mikið fyrir að ná sér í næringu og verður ávöxturinn fyrir vikið minni en vandaðari. Morgon þykir alla jafna gefa af sér kraftmeiri vín heldur en gengur og gerist í Beaujolais og þola þau einnig meiri geymslu en önnur. Hugtakið “Morgonner” (Morgonísering á óvandaðri Íslensku Vínsíðanna) er orð sem er notað til að lýsa hvernig þessi vín þroskast með tímanum og verða þau ekki ólík þroskuðu Pinot Noir. Þetta tiltekna vín er auðvitað 100% Gamay eins og öll önnur rauðvín svæðisins og fær það að þroskast í nokkra mánuði í stórum “foudres” áður en það er sett á flösku.

Vínið er ljósrautt og nokkuð létt að sjá. Ilmurinn opinn og nokkuð margslunginn með léttum kryddum í upphafi en fljótlega kemur hinn dæmigerði og bjarti ávöxtur Gamay þrúgunnar fram með öllum sínum fersku svörtu kirsuberjum, bláberjum, krækiberjum og sólberjum en einnig er að finna dass af fjólum, bökunarkryddum og lakkrís. Ilmurinn er eitthvað sem ég gæti notið í mjög langann tíma. Í munni er það meðalbragð með létt en þó staðföst tannín og dágóða sýru. Ávöxturinn er þéttur með jarðarber, hindber og kirsuber í forgrunni en einnig er að finna góðar kryddjurtir í bland við mild krydd. Þetta er örlítið léttara en önnur Morgon vín sem ég hef smakkað en það skal þó taka fram að þau hafa öll verið úr hinum sólríka og heita 2020 árgangi og vilja menn meina að 2019 sýni dæmigerðari karaktereinkenni Beaujolais héraðsins. Drekkið þetta kælt (14 gráður) með ljósu grillkjöti á sólríkum degi.

Verð: 3.450 kr
Margslungið, létt og dæmigert Beaujolais af bestu gerð. Frábært jafnvægi og góð sýra gerir þetta einstaklega matarvænt.
4.5

(91/100)

You might be interested in …

1 Comment

Leave a Reply