Louis Jadot Beaujolais-Villages Combe aux Jacques 2020

Louis Jadot er gríðarlega þekkt stærð í franskri víngerð sem kemur ekkert á óvart þegar rennt er í gegnum úrvalið þeirra. Framleiðslan þeirra nær frá Chablis, í gegnum Búrgúndí nokkurn veginn eins og það leggur sig og loks niður til Beaujolais. Hér erum við með Beaujolais-Villages vín, eða Beajolais þorpara, og kemur ávöxturinn frá nokkrum þorpum sem Louis Jadot hefur aðgang að og eru þetta þorpin Lantigné, Lancié and Régnié sem öll liggja nokkuð norðarlega í Beaujolais, ekki langt frá nokkrum af bestu ekrum héraðsins. Jarðvegurinn þar er blanda af leirkenndum og granítríkum jarðvegi sem er hentar Gamay ágætlega þó svo að bestu vín úr Gamay koma úr ekrum þar sem að granítlagið er meira en leirinn.

Vínið er dimmrautt með fjólubláum taum sem er afskaplega einkennandi fyrir Gamay úr frá þessum árgangi. Ilmurinn er galopinn og gríðarlega ávaxtaríkur með dökkum berjum í forgrunni. Sultuð sólber, svört kirsuber, snert af fjólum, jarðarber, bökunarkrydd og dass af lakkrís. Allt eins og það á að vera í góðum Beaujolais þorpara. Í munni er það létt og nokkuð sýruríkt, með fínleg en þá áberandi tannín. Ávöxturinn er ennþá í aðalhlutverki, eins og hann á að vera, og er hann ögn rauðari en hann var í nefi. Ákveðin mýkt þrátt fyrir góða sýru sem gerir þetta afskaplega ljúft og auðdrekkanlegt. Mæli eindregið með að drekka þetta við 14-15 gráður, alls ekki heitara, og hafið þetta með grillaðri grísalund eða einfaldlega með góðum charcutterie bakka.

Verð: 3.199 kr
Einfalt, ávaxtaríkt og afskaplega ljúft Beaujolais.
4

(86/100)

You might be interested in …

Leave a Reply