Það virðist gerast æ sjaldnar að það rati vín frá Chile inn á borð til mín og mætti halda að þau hafi dottið aðeins úr tísku eftir að hafa átt gríðarlega góðu gengi að fagna fyrir alls ekki mörgum árum. Víngerð Chile er þekkt fyrir að vera markaðsþenkjandi og reynir eftir fremsta megni að svara kröfum neytenda og kann það að útskýra bæði velgengi þeirra hér áður sem og lægðinni sem þau eru í. Það er mín tilfinning að neytendur í dag séu í auknu mæli að kalla eftir vín með sterkan uppruna, það er að segja að vínin beri uppruna sinn með sér, með öllum þeim kostum og göllum sem kunna að fylgja því. Hin aðgengilegu og stöðugu vín Chile eru einfaldlega ekki lengur töff, því miður. En hvað veit ég svosem, þetta er einungis tilfinning. Hér erum við með Chardonnay frá Chile, nánar tiltekið Colchagua dalnum sem er líklegast eitt þekktasta vínræktarsvæði landsins. Það sem er áhugavert við þetta vín er að þrátt fyrir að vera nánast að öllu leyti gert úr Chardonnay lauma víngerðarmenn Viu Manent dass af Viognier með (7%), væntanlega til að gefa því smá kjöt á beinið.
Vínið er ljóssítrónugult á litinn og með afskaplega opinn ilm. Sítrusávextir eru afskaplega áberandi í fyrstu með sítrónu, lime og greip í aðalhlutverki en bakvið þá er að finna steinefni, hunangsvott, melónu, græn epli, peru, mangó og hvít blóm. Ferskur og nokkuð þéttur ilmur. Kom skemmtilega á óvart hvað er mikið í gangi og án þess að ætla að fullyrða neitt þá finnst mér líklegt að þessi 7% Viognier spili stórt hlutverk þar. Í munni er það þurrt og nokkuð bragðmikið með ágæta sýru sem mætti þó vera ögn meiri. Sítrusávöxturinn er ennþá til staðar, fyrst um sinn, en steinefnin koma sterkari inn í smástund, en á endanum eru það búttaðir suðrænir ávextir sem taka yfir og loka þessu með glæsibrag. Þetta er fyrst og fremst ávaxtaríkt og er ávöxturinn dálítið búttaður en þrátt fyrir að vera örlítið einhæft þá er hressandi að fá Chardonnay sem er ekki keyrt í kaf með tunnuþroskun. Drekkið þetta ekki of kalt (takið það s.s. úr kæli hálftíma fyrir neyslu) og drekkið þetta með bragðmeiri fiskréttum.
(85/100)