Beaujolais – gleymda perla vínheimsins!

Það er ótrúlegt hvað fáir vita hvað Beaujolais er, þegar ég tek það sem dæmi á námskeiðum og eiginlega ennþá ótrúlegra hvað fáir vita hvað Beaujolais Nouveau er, þegar ég nota það sem dæmi til að útskýra hið fyrra. Ekki nóg með að það sé ótrúlegt, heldur er það ekki minna sorglegt, því að gott Beaujolais vín er geggjað. En það er ekki langt síðan að ég enduruppgötvaði þetta hálf gleymda vínræktarhérað og viðurkenni ég það fúslega að fyrir þann tíma var ég svolítið týndur í Nouveau fordómum, og hélt að allt Beaujolais væri í flokki með þessum einföldu ofunnu vínum sem réðust á markaðinn fyrir 20 árum. En fyrir stuttu var ég svo heppinn að fá að smakka vín frá gríðarlega vönduðum framleiðanda í Beaujolais og það gjörbreytti áliti mínu á þessu héraði, sem hrakti þessa bjánalegu fordóma mína burt samstundis. En ég gat ekki látið staðar numið þar. Ég fann einhverja nístandi löngun til að deila þessu með öllum sem nenntu að hlusta, því að mér finnst mikil synd að þessi vín fái ekki þá athygli sem þau eiga skilið.

Beaujolais Nouveau

Til að skilja Beaujolais í dag og til að skilja hvers vegna það er svona vel varðveitt leyndarmál, þá verðum við eiginlega að byrja á Beaujolais Nouveau. Einhverjir kunna að vita að Beaujolais Nouveau er vín, sem hefð er  fyrir að komi á markað þriðja fimmtudaginn í nóvember á hverju ári. Þeir sömu kunna líka að vita, að þessi vín eru í besta falli, allt í lagi. Þetta eru vín, sem koma á markað rétt rúmlega tveimur mánuðum eftir að berin eru tínd og eru vínin eftir því ungleg, frískleg og oft á tíðum með einkennandi banana og húbba búbba keim, sem þú finnur sjaldan annars staðar. Sú hefð að setja vín á markað sama ár og berin eru tínd er alls ekki einstakt í Beaujolais, heldur mega öll vínræktarhéruð Frakklands gera þetta og flest héruðin stunda það , en sjaldan til útflutnings. Það var hins vegar hinn goðsagnakenndi og umdeildi George Duboeuf sem sá tækifæri í þessu og tókst honum ótrúlega vel til. Hann ákvað að fara með þetta konsept í víking og hóf útflutning á þessum vínum sem hann gaf nafnið Nouveau. Erlendir markaðir tóku þessum einföldu, ávaxtaríku og líflegu vínum fagnandi, sem varð til þess að hver einasti vínframleiðandi í Beaujolais stökk á vagninn, því þetta gjörbreytti leiknum. Í stað þess að þurfa að liggja á framleiðslunni í marga mánuði, og stundum heilu árin, áður en hún var seld, þá seldu þeir stóran hluta uppskerunnar yfirleitt eftir tvo mánuði. Vasar fylltust af peningum og það var gríðarlega gaman að vera vínframleiðandi í Beaujolais. En velgengnin steig framleiðendum smám saman til höfuðs og fór að halla á gæði vínanna í stað magns, sem varð til þess að Nouveau æðið hrundi fljótlega um aldamótin. Áhrifin voru gríðarleg fyrir allt Beujolais héraðið, ekki bara fyrir Nouveau og því lifa Nouveau fordómar ennþá góðu lífi. Í dag er hins vegar ný kynslóð víngerðarmanna að taka við keflinu í Beaujolais. Kynslóð sem hefur horft upp á forvera sína gera öll mistökin, og eru nú gríðarlega spennandi tímar framundan. Segja má að Beaujolais sé búið að skipta um kennitölu og sé laust við gamlar skuldir.

Vínin og þrúgurnar

Beaujolais héraðið er staðsett í austurhluta mið Frakklands, sunnan við Búrgúndí og norðan við Rónardalinn. 99% Beaujolais vína eru rauðvín, svo einfalt er það. Til  að gera þetta enn einfaldara, þá eru öll rauðvín frá Beaujolais gerð úr þrúgunni Gamay, sem er afsprengi Pinot Noir þrúgunnar, sem lifir góðu lífi norðan við Beaujolais. Gamay hefur lengi vel þurft að þola mikla og ósanngjarna gagnrýni vínsnobbara þar sem að hún er gríðarlega afkastamikil og verða vínin oft karakterlítil ef ekki er hugað vel að vínviðnum. Ef hins vegar, vel er hugsað um vínviðinn og hann ræktaður í réttum jarðvegi, getur Gamay gefið af sér frábær og langlíf matarvín sem eiga sér enga líka. Vínin eru allt frá því að vera létt, sýrurík, einföld og ávaxtarík vín, sem eiga að drekkast ung, yfir í að vera bragðmikil, margslungin og glæsilega byggð rauðvín sem eiga heima á matarborðinu eða í vínkjallaranum (vínkælinum). Hvítvínin eru að mestu gerð úr Chardonnay og Aligoté og er hlutfall þeirra af heildinni ágætis vísbending um gæði þeirra.

Gamay þrúgan í öllu sínu veldi (mynd – http://www.beaujolais.com)

Gæðakerfið

Beaujolais er skipt í þrjá gæðaflokka. Fyrsti og “lægsti” gæðaflokkurinn er Beaujolais AOC, sem nær yfir stærsta hluta vínframleiðslu Beaujolais og eru þær ekrur staðsettar í suðurhluta héraðsins. Kalksteins- og leirkenndur jarðvegurinn gerir það að verkum að vínin verða afskaplega ávaxtarík, vinaleg og einföld. Allt Beaujolais Nouveau kemur héðan. Næst kemur Beaujolais-Villages AOC og liggja þær ekrur  norðar í héraðinu þar sem að jarðvegurinn inniheldur meiri granít og er sendnari en í suðurhlutanum. Þessi vín bera oft nafn þorpsins (village), sem ekrurnar liggja við, en oft eru vínin blanda af nokkrum þorpum sem gerir það ómögulegt að nota þorpsnafnið. Vínin eru oftast aðeins margslungnari en grunn Beaujolais, með meiri byggingu og meiri alvarleika, án þess þó að glata þessum ávaxtaríka og vinalega persónuleika Gamay þrúgunnar. Efsta þrepið í gæðum eru svokölluð Cru Beaujolais vín. Líkt og hjá nágrönnum þeirra í norðri og suðri þá er búið að eyrnamerkja ákveðna staði sem þykja bera af til vínræktar. Þessi Cru, eða yrki, eru 10 talsins. Hér  eru framleidd frábær vín, sem öll hafa sinn persónuleika og eru, að mínu mati, best geymdu “leyndarmál” vínheimsins í dag. Hér eru yrkin tíu:

  • Saint-Amour
  • Juliénas
  • Chénas
  • Moulin-à-Vent
  • Fleurie
  • Chiroubles
  • Morgon
  • Régnié
  • Brouilly
  • Côte de Brouilly

Þessi vín flagga þó sjaldnast nafninu Beaujolais þar sem að framleiðendur eru enn hræddir við Nouveau fordómana en  þeir eru að reyna að búa til ákveðið aukenni, sem er utan Beaujolais, líkt og tíðkast í Búrgúndi og víðar. Ólíkt Beaujolais AOC og Beaujolais-Villages AOC þá þola þessi vín töluverða geymslu og þróa þau oft með sér svipuð einkenni og Pinot Noir þegar þau þroskast. Það er svo á teikniborðinu hjá INAO (sem sér um allt regluverk franskra vínræktarhéraða) að setja á fót nýjan flokk, Beaujolais Premier Cru, og er sú vinna langt komin þó svo að ekkert sé gefið um hvenær sú vinna verði kláruð. Það verður gríðarlega áhugavert að sjá hvaða svæði verða fyrir valinu, en það nokkuð víst að þetta á eftir að auka hróður Beaujolais og sýnir glöggt metnaðinn sem er í gangi þar.

Fleurie í Beaujolais (Mynd http://www.beaujolais.com)

Beaujolais og matur

Beaujolais vín eru afskaplega skemmtileg matarvín sökum þess hversu sýrurík þau eru. Það er þó, eins og með önnur vín, erfitt að alhæfa of mikið, en það er óhætt að segja að Beaujolais hentar gríðarlega vel pylsubökkum, eða Charcutterie eins og það heitir á móðurmálinu. Salamipyslur (saucisson), paté og rillettes eru frábærir með Beaujolais, en einnig eru hvítmygluostar eins og Camembert og Brie frábær pörun. Léttari Beaujolais vín geta verið skemmtileg með grilluðum kjúling, en einnig er hægt að para bragðmeiri fiskrétti við þau. Túnfisksteikur og jafnvel sushi koma einnig til greina. Með bragðmeiri Beaujolais vínum er óhætt að mæla með andakjöti, hvort sem það er bringa eða confit. Grillað grísakjöt hentar líka afskaplega vel og nauta tartarið sem ég borðaði með glasi af léttkældu Moulin-à-Vent síðast þegar ég var í París, var  geggjað.

Gott er að hafa í huga að Beaujolais eru yfirleitt í léttari kantinum og sem slík, þola þau vel að vera kæld þegar  opna á flösku. Ég mæli eindregið með að hafa þau við 14 gráður, þó svo að léttustu Beaujolais vínin þoli alveg að fara neðar.

6 FRÁBÆR BEAUJOLAIS VÍN SEM VÍNSÍÐURNAR MÆLA MEÐ

Joseph Drouhin Morgon 2020

Joseph Drouhin er einn af virtari vínframleiðendum Búrgúndar og raunar Frakklands ef út í það er farið. Drouhin framleiðir vín frá u.þ.b. 90 AOC, allt frá rándýrum Grand Cru frá Búrgúndi og Chablis “niður” í einföldum og auðdrekkanlegum Pinot Noir blöndum sem eru ræktaðar hér og…

Mommessin Beaujolais-Villages 2020

Mommessin er “négociant” sem var stofnaður árið 1865 þegar Jean-Marie Mommessin stofnaði víngerðina í gömlu munnkaklaustri sem hafði áður þjónað Cluny reglunni í Suðurhluta Búrgúndí. Síðan þá hefur starfsemin flust aðeins sunnar og eru höfuðstöðvarnar í Quincié-en-Beaujolais. Í dag er víngerðin með þeim mikilvægari í Beaujolais…

Chateau de la Chaize Morgon 2019

Morgon er stærstur af hinum 10 Cru Beaujolais, sem eru bestu vínræktarsvæði Beaujolais. Jarðvegurinn einkennist af granít og blágrýti sem gerir það að verkum að vínviðurinn þarf að hafa mikið fyrir að ná sér í næringu og verður ávöxturinn fyrir vikið minni en vandaðari. Morgon þykir…

Chateau de la Chaize Bouilly 2019

Þetta er annað vínið sem ég tekið fyrir frá þessum frábæra framleiðanda í Beaujolais, en í gær fjallaði ég um hið margslungna og vinalega Morgon 2019. Hér erum við komin með Brouilly, sem er annað af hinum 10 Cru Beaujolais, og er víngerðin staðsett í Odenas…

Louis Jadot Beaujolais-Villages Combe aux Jacques 2020

Louis Jadot er gríðarlega þekkt stærð í franskri víngerð sem kemur ekkert á óvart þegar rennt er í gegnum úrvalið þeirra. Framleiðslan þeirra nær frá Chablis, í gegnum Búrgúndí nokkurn veginn eins og það leggur sig og loks niður til Beaujolais. Hér erum við með Beaujolais-Villages…

Chateau des Jacques Moulin-à-Vent 2019

Chateau de Jacques er rótgróin víngerð í Norðurhluta Beaujolais, nánar tiltekið í Moulin-à-Vent, sem hefur verið í eigu hins virta Maison Louis Jadot, sem einhverjir kunna að kannast við, síðan 1996. Moulin-à-Vent er eitt af tíu Cru Beaujolais og oft talað um það sem konunginn af…

You might be interested in …

Leave a Reply