Chateau des Jacques Moulin-à-Vent 2019

Chateau de Jacques er rótgróin víngerð í Norðurhluta Beaujolais, nánar tiltekið í Moulin-à-Vent, sem hefur verið í eigu hins virta Maison Louis Jadot, sem einhverjir kunna að kannast við, síðan 1996. Moulin-à-Vent er eitt af tíu Cru Beaujolais og oft talað um það sem konunginn af Beaujolais þar sem að gæði vínanna eru í hæsta gæðaflokki. Ólíkt hinum Cru Beaujolais þá muntu ekki finna Moulin-à-Vent á korti þar sem að ekrurnar liggja við bæina Romanèche-Thorins og Chénas en í stað þess að draga nafn sitt frá þeim bæjum er það gömul vindmylla sem er áhrifavaldurinn (moulin-à-vent þýðir orðrétt vindmylla á frönsku). Vínin þaðan eru rómuð fyrir glæsileika og góða byggingu og líkt og Morgon þá þroskast Moulin-à-Vent í mjög áþekka átt og Pinot Noir, sem verður að teljast mikið lof. Eins og öll önnur rauð Beaujolais vín þá er Gamay með einokun á þessu víni og fær það að þroskast í 10 mánuði á notuðum eikartunnum áður en það er sett á flösku.

Vínið er fallega rautt á litinn og nokkuð létt að sjá. Ilmurinn og dásamlegur Gamay ilmur stekkur í fangið á þér strax um leið með allan sinn bjarta og gómsæta ávöxt. Hindber, jarðarber, rifsber og trönuber leika stórt hlutverk en blómlegur ilmur vefur sig utan um ávöxtinn og bindur þetta fallega saman. Ef vel er að gáð er einnig að finna mildan kryddtón ásamt dass af lakkrís. Virkilega aðlaðandi og nokkuð kraftmikill ilmur. Í munni er það nokkuð bragðmikið með dæmigerða sýru sem gerir þetta svo ótrúlega ferskt og bjart. Fínleg en samt ákveðin tannín, gott jafnvægi og löng ending. Gæti alveg séð þetta ganga frábærlega með góðu lambakjöti en líka með grísalundum af grillinu. Munið bara að drekka þetta við sirka 14 gráður eins og önnur Beaujolais vín.

Verð: 4.199
Kraftmikið, elegant, bjart og gómsætt. Frábært Beajolais.
4.5

(91/100)

You might be interested in …

Leave a Reply