Nú þegar Covid heimsfaraldurinn er að renna sitt skeið, eða allavega hræðslan við faraldurinn, þá er ansi margt sem fer í gang – hlutir sem hafa hreinlega ekki gerst í heil tvö ár. Eitt af því er að fulltrúar erlendra vínframleiðanda eru farnir að ferðast á ný og virðist vera að þeir séu allir sem einn æstir í að koma til Íslands. Sem er vægast sagt kærkomið. Nýlega var Vincent Delcher frá Maison Louis Jadot hér á landi til að kynna víngerðina og vínin þeirra og var ég svo heppinn að fá að setjast niður með honum yfir dásamlegum lax með brakandi ferskum aspas og Couvent des Jacobins Chardonnay 2019 í glasi á nýuppgerðum veitingastað á Hótel Borg. Við ræddum um Covid tímana, víngerðina, fortíðina, framtíðina og síðast en ekki síst – Burgúndi.
Smá um söguna
Louis Jadot var stofnað 1859 af Louis Henry Denis Jadot en á í raun rætur sínar að rekja alveg aftur til ársins 1829 þegar Jadot eignaðist Clos des Ursules vínekruna sem hefur verið í eigu Maison Louis Jadot alla tíð síðan þá. Fyrst um sinn var Jadot þó bara ræktandi og seldi hann uppskeruna til svokallaðra négociants sem sáu um að þroska vínið, setja það á flöskur og selja það. En árið 1859 sá hann hag í því að gerast sjálfur négociant og má segja að þar hefst rekstur Maison Louis Jadot fyrir alvöru. Fljótlega uppúr aldamótunum 1900 ræðst sonur Louis jadot, sem einnig hét Louis Jadot, að sanka að sér vínekrum í Búrgúndí og þá aðallega premier cru og grand cru ekrur í leit að leiðum til að framleiða vín í hæsta gæðaflokki. Í dag er Maison Louis Jadot stærsti eigandi vínekra í Côte d’Or með um 150 hektara í sinni eigu og er lang stærsti hluti þeirra hektara premier cru og grand cru ekrur. Einnig er víngerðin búin að gera sig gildandi í Chablis með langtímasamningum við ræktendur sem tryggir Maison Louis Jadot ávöxt frá fjórum af sjö Grand Cru ekrum svæðisins ásamt nokkrum premier cru og auðvitað grunn Chablis. Að lokum á Maison Louis Jadot vínhúsin Domaine Ferret í Pouilly Fuissé og Chateau des Jacques í Beaujolais sem framleiðir frábær vín svo ekki sé meira sagt og erum við afskaplega heppin að hafa aðgang að tveimur vínum í verslunum vínbúðanna. Þegar ég spurði Vincent hvað Maison Louis Jadot framleiddi mörg mismunandi vín í heildina yppti hann glottandi öxlum og sagðist hreinlega ekki vera alveg viss en það væri sennilega einhvers staðar á bilinu 160 til 180, sem er galin fjöldi. Það sem hann var hins vegar alveg með á kristaltæru var áherslan á gæði framar öllu öðru. Sem dæmi um það þá velja þeir gaumgæfilega þá ræktendur sem þau vinna með og gera helst langtímasamninga við þá. Þannig er hægt að tryggja gott og náið samstarf þar sem Maison Louis Jadot er með góða stjórn á hvernig vínviðurinn er ræktaður og hirtur. Einnig starfrækir Maison Louis Jadot 6 víngerðir til að tryggja að berin komist sem allra fyrst í pressun eftir að þau eru tínd og missi þannig ekki ferskleika sinn og gæði.

Bjartir en flóknir tímar framundan
Óhjákvæmilega þá duttum við Vincent beint í Covid spjall, eitthvað sem fer minnkandi en gerist þó enn. Það er hins vegar afskaplega áhugavert hvernig faraldurinn hafði mismunandi áhrif á vínframleiðendur eftir staðsetningu, stærð og umfangi. Louis Jadot er stórt og þekkt vörumerki og þrátt fyrir að 85% af framleiðslunni hafi fyrir faraldur selst á veitingahúsum þá dró faraldurinn ekkert úr sölu hjá Maison Jadot. Vissulega hefur styrkleiki vörumerkisins mikið að segja en einnig náði víngerðin að virkja smásöluna enn betur en áður meðan að veitingastaðir voru lokaðir. Neytendur voru einfaldlega duglegri að gera vel við sig í mat og drykk heima fyrir í staðinn og virðist vera að fólk hafi verið tilbúið að eyða aðeins meira í vín og prófa dýrari vín fyrir vikið. Líklega hefur auka innistæða á bankabókinni vegna ferðaleysis eitthvað að segja líka. Áhugavert nokk var árið 2021 besta ár víngerðarinnar í sölu, samkvæmt Vincent.
En það er ekki allt glamúr og gaman við að vera vínframeiðandi í Búrgúndí. Það eru alls konar áskoranir sem þarf að takast á við á hverju einasta ári og samkvæmt Vincent þá virðast loftslagsbreytingar vera ein mesta áskorunin sem blasir við framleiðendum. Hin umtalaða hnatthlýnun hefur gert vínræktendum lífið leitt síðasta áratug eða svo þar sem að hlýjindi sem hlýst af henni veldur því meðal anars að brumið hefur verið að hefjast fyrr á vorin sem getur reynst erfitt þar sem að vorfrostið er ekki langt undan, samanber gamla góða páskahretið okkar Íslendinga. Þetta eitt og sér hefur leitt af sér uppskerubrest síðustu árin og með honum skapast enn fleiri vandamál eins og t.d. verð á vínberjum ræktenda. En hlýnun fylgir líka meiri þroski í berjunum sem getur verið ákveðin áskorun fyrir framleiðendur.
Framúrskarandi vín
Meðan á heimsókn Vincent stóð voru haldnar smakkanir og var ég svo heppinn að fá boð á eina slíka sem haldinn var í vinnustofu Kjarvals. Eftir að hafa barist í gegnum rigningu, snjó og haglél á rafmagnshlaupahjólinu komst ég á leiðarenda þar sem biðu 10 vín vítt og breitt úr framleiðslu Louis Jadot. Það er óhætt að segja að þó svo að víngerðin sé sú stærsta í Búrgúndí þá er hún langt frá því að slaka á í gæðum, rétt eins og Vincent talaði svo ástríðulega um. Eftirfarandi vín voru smökkuð og voru þau öll sem eitt framúrskarandi og náðu þau að tjá uppruna sinn með nokkuð afgerandi hætti.
- Chablis Les Grandes Rives 2020
- Chablis Grand Cru Blanchot 2018
- Domaine Ferret Pouilly-Fuissé 2018
- Mercurey 2018
- Beaune Premier Cru Clos de Couchereaux 2016
- Pommard Premier Cru Les Grands Epenots 2015
- Marsannay Clos du Roy 2018
- Gevrey-Chambertin 2016
- Chambolle Musigny Les Drazey 2017
- Grand Cru Clos Vougeot 2015
Þó svo að hið magnaða Clos Vougeot hafi óneitanlega sýnt allan þann glæsileika og alla þá dýpt sem Pinot Noir í hæstu gæðum hefur upp á að bjóða þá voru “minni” spámenn á borð við Marsannay Clos du Roy 2018 og Chambolle Musigny Les Drazey 2017 sem heilluðu mig mest. Kannski vegna þess að þau voru auðlesnari en híð flókna Clos Vougeot sem þarfnast heillar kvöldstundar til að njóta en mögulega líka vegna þess að Pinot Noir í sinni einfaldari mynd er svo yndislega ljúft, bjart og vinalegt.
Í dag eru 6 vín frá þessum frábæra framleiðanda fáanleg í Vínbúðunum og get ég ekki annað en hvatt ykkur til að kynna ykkur þau, því að gæðin eru 100% til staðar.
