Site icon Vínsíðurnar

Markus Molitor Haus Klosterberg Riesling 2018

Það er mikil gleði að sjá ný Riesling vín detta inn í hillum vínbúðanna og enn meiri gleði þegar það kemur frá jafn vönduðum framleiðanda og Weingut Markus Molitor. Fyrir þá sem ekki þekkja þá er Markus Molitor margverðlaunaður vínframleiðandi í Mosel dalnum og á hann um 65 hektara þar, megnið af þeim Riesling. Hann hefur fengið viðurnefnið “Herr 300 punkte” þar sem að 3 mismunandi Riesling Auslese vín hlutu 100 punkta hjá hinum alræmda Robert Parker Jr. árið 2015 sem er glæsilegur skrautfjöður í frægðarhatt hvers víngerðarmanns. Þetta tiltekna vín er alfarið gert úr Riesling sem kemur frá nokkrum mismunandi ekrum Markúsar í Mosel dalnum og má segja að þetta sé nokkurs konar grunn Riesling.

Vínið er fölgyllt á litinn með opinn ilm sem einkennist af dæmigerðum sítrus, steinefnum, gulum blómum og nettum steinolíutónum en þarna er líka að finna alls konar gúmmelaði eins og t.d. hunangsmelónu, græn epli og hunang. Frábær Riesling ilmur. Í munni er það þurrt og nokkuð ferskt með góðan sítrusávöxt í forgrunni en grænu eplin, steiefnin og hunangstónarnir fylgja með. Virkilega góð bygging og langt eftirbragð gerir þetta að afbragðs matarvíni. Ég drakk þetta með grilluðum kjúklingaspjótum marineruðum í sítrus sem svínvirkaði en þetta vín á alveg eins heima með grilluðum lax eða öðrum feitum fisk.

Verð: 2.990 kr
Létt og elegant Riesling frá frábærum framleðianda. Mikið fyrir peninginn!
4

(88/100)

Exit mobile version