Umani Ronchi Jorio Montepulciano d’Abruzzo 2018

Þrúgan Montepulciano er næst mest plantaða þrúga Ítalíu eftir Sangiovese. Reyndar er nokkuð mjótt á munum milli hennar og Catarratto Bianco en samkvæmt nýjustu tölum hirðir Montepulciano silfrið. Heimavöllur hennar er í mið hluta Ítalíu og þá sérstaklega í Marche, Molisa og síðast en ekki síst Abruzzo þar sem að hún gefur tvímælalaust af sér sín bestu vín. Hún hefur ekkert að gera með vínin sem koma frá Montepulciano í Toskana, þar sem að Sangiovese er í aðalhlutverki en ég get alveg skilið hvers vegna einhverjir kunna að ruglast.

Vínið er fallega rúbínrautt á litinn og með vel opinn ilm. Kirsuber, balsamik og sveitalegur leðurvottur ásamt tóbaki og jörð í byrjun en með smá öndun víkur leðurkarakterinn fyrir dökkum ávexti og dökku súkkulaði. Nokkuð margslunginn ilmur sem kom mér skemmtilega á óvart. Í munni er það miðlungsbragðmikið með ágætis tannín sem eru þó ágætlega rúnuð og ættu ekki að stuða neinn. Sýran er góð og lyftir víninu upp og er sveitalegi leðurkarakterinn á sínum stað ásamt dökkum berjum og kaffi/súkkulaðitónum. Eftirbragðið er þokkalega langt. Sé fyrir mér að þetta mundi smellpassa með lambalæri af grillinu á góðum sumardegi. Drekkið við sirka 18°c.

Verð: 2.999 kr
Virkilega skemmtilegt og vel gert Montepulciano d’Abruzzo. Margslungið og í góðu jafnvægi. Mundi þó fá mínusstig fyrir miðann ef ég tæki hann inn í stigagjöfina, sem ég geri blessunalega ekki.
4

(89/100)

You might be interested in …

Leave a Reply