Paco & Lola Albariño 2021

Ég hef alltaf verið aðdáandi Albariño. Ég held reyndar að það sé ekki skjalfest í neinum víndómum mínum, sem er nokkuð undarlegt, en ég hef oftar en einu sinni tjáð þessa skoðun í mæltu máli. Það sem mér þykir undarlegt er að þessi frábæru vín stoppa alltaf stutt í hillum vínbúðanna og velti ég fyrir mér hvort að hið framlegðardrifna vöruúrvalskerfi Vínbúðanna sé sökudólgurinn frekar en bragðlaukar okkar Íslendinga. Mig langar allavega að halda í þá von að einn daginn verði Albariño með fyrstu kostum þegar fólk er að para saman hvítvín með fisk, því að þessi vín skara framúr í þeim flokk. Hér erum við með 100% Albariño frá Paco & Lola og kemur ávöxturinn frá “heimakynjum” Albariño í Rias Baixas sem staðsett er í Baskalandi á N-Spáni. Jarðvegurinn sem vínviðurinn er ræktaður á er sendinn með ögn af leir á granítkenndu grunni og fer það ekki á eikartunnur líkt og venjan er með Albariño vín, enda á ávöxturinn að fá að skína.

Vínið er fölgyllt með opinn og glaðlegann ilm sem einkennist af perum, hvítum blómu, grænum eplum, sítrusávöxtum, grösugum tónum ásamt léttri ferskju og melónu í bakgrunninum. Ótrúlega aðlaðandi ilmur sem ætti að fá alla hvítvínshatara til að hugsa sinn gang. Í munni er það meðlungs bragðmikið og nokkuð ljúft en á sama tíma með góða sýru sem ber vínið. Ávöxturinn heldur áfram þar sem frá var horfið og eru græn epli, pera og melónu í bílstjórasætinu. Þetta er nokkuð alvörugefnara en mörg önnur Albariño sem ég hef smakkað og ætti að steinliggja með góðu sushi eða bragðmeiri fiskréttum.

Verð: 3.290 kr
Geggjaður ávöxtur, flott bygging og vandað Albariño. Frábært með Sushi.
4.5

(90/100)

You might be interested in …

Leave a Reply