Triade Bianco della Campania 2020

Ég grínast oft með það á námskeiðum að Ítalir séu yndislega klikkaðir þegar kemur að úrval vínþrúga sem þeir hafa yfir að ráða í víngerð en staðreyndin er sú að það eru góðar líkur á að þú munir uppgötva nýja þrúgutegund þegar þú prófar nýtt vín frá Ítalíu. Oftast eru þær ekki einu sinni einar á ferð þannig að oft verður uppgötvunin enn meiri. Hér erum við sem dæmi með nokkuð jafna blöndu af Fiano, Falanghina og Greco – allt saman þrúgur sem þú finnur ekki víða utan Ítalíu (og reyndar ekki heldur utan Campania ef út í það er farið). Það er einmitt þetta sem gerir Ítalíu svo ótrúlega skemmtilegt, en á sama tíma flókið, viðfangsefni fyrir vínáhugamanninn.

Vínið er fölgyllt á litinn með opinn og frísklegan ilm. Grösugir tónar eru áberandi í fyrstu ásamt glás af greip og öðrum sítrusávöxtum en eftir smá stund í glasi fikra blómlegur tónar sig framar í röðinni ásamt hæfilegu magni af suðrænum ávöxtum. Hóflegur ilmur en ekki á þann veg að hann skorti eitthvað. Í munni er það aftur á frísklegu nótunum og í léttari kantinum með góða sýru. Sítrusávextirnir eru þar búnir að taka völdin en leyfa þó grösugum tónum að spretta fram í skömmtum. Þetta er nokkuð einfalt en skortir alls ekki karakter og það er einmitt það sem heillar mig. Það er ekkert að þykjast, það er heiðarlegt og þráðbeint. Ætti að fara vel með marineruðum risarækjum en auðvitað líka með léttari fiskréttum.

Verð: 2.990 kr
Einfalt, heiðarlegt og skortir ekki karakter. Ferskt vín sem á heima með mat.
4

(86/100)

You might be interested in …

Leave a Reply