Abavas Rabarbers Brut

Ég hef ákaflega gaman af því þegar vín koma mér á óvart þó að skuli viðurkennast að mér finnst það yfirleitt betra þegar þau koma mér skemmtilega á óvart. Þegar ég fékk flösku af rabbarbara freyðivíni frá Lettlandi í hendurnar fyrir nokkru átti ég satt best að segja ekki von á miklu og ekki laust við að smá fordómar hefðu átt sinn þátt í að mynda þær væntingar, ég viðurkenni það fúslega. Abavas Rabarbers er s.s. framleitt af fjölskylduvíngerðinni Abava sem var stofnuð árið 2010 og virðist vera orðið leiðandi í Lettneskri víngerð og þá sérstaklega í framleiðslu ávaxtavína. Þetta er framleitt úr úrvals rabbarbara frá Lettlandi og safinn látinn gerjast við lágt hitastig til þess að varðveita eins mikið af hinum fínlegu ilmolíum sem rabbarbarinn inniheldur.

Vínið er föllaxableikt á litinn og smá feimið í upphafi. Opnast fljótlega en heldur áfram að vera afskaplega fínlegt og er helst að finna ilm af rabbarbara (kemur svosem ekki á óvart) en einnig er glás af jarðarberjum ásamt rifsberjum, grösugum tónum og stikilsberjum. Virkilega frísklegur ilmur sem kemur munnvatnsframleiðslu í gang. Í munni er það ferskt, rétt eins og ilmurinn gaf til kynna en það er þó ögn sætara en ég bjóst við en á góðann hátt. Sýran er þó góð á móti og er jafnvægið afskaplega gott. Það endar svo á safaríkum rauðum berjum. Þetta er virkilega glaðlegt vín sem ætti að höfða til gríðarlega margra og er algjörlega frábær staðgengill “venjulegra” freyðivína ef þið viljið prófa eitthvað nýtt.

Verð: 3.275
Ferskt og skemmtilega öðruvísi. Smá sæta en alls ekki væmið.
4

(88/100)

You might be interested in …

Leave a Reply