Ég er ötull talsmaður og einlægur aðdáandi Riesling þrúgunnar og hef ekki farið leynt með það. Mér er nokkuð sama hvort hún kemur frá mósaíkhéraðinu Alsace eða hinum undirverðlögðu en mögnuðu vínræktarsvæðum þýskalands og ég skal meira að segja taka undir það að á vissum svæðum sunnan við miðbaug eru framleidd frábær Riesling vín. Það verður því að teljast nokkuð góðar fréttir fyrir mig, og vonandi fleiri, að það virðist vera uppsveifla á þýskum Riesling vínum bæði hér á landi en þó sérstaklega á alþjóðlegum mörkuðum.
Hér er á ferðinni einn af betri framleiðendum Mosel dalsins, Markús nokkur Molitor, sem hefur orðspor af því að framleiða vín, og þá sérstaklega vín úr Riesling, í allra hæsta gæðaflokki. Vínið er gert úr ávexti sem kemur af gömlum vínvið (alte reben þýðir bókstaflega gamall vínviður) og eru einhverjar plöntunarnar rúmlega 100 ára gamlar þó svo að megnið sé um 60 ára gamlar.
Vínið er fölgyllt með opinn ilm af sítrus, ferskjum, greip, perubrjóstsykur, steinefnum, hunangsmelónu og dass af hunangi sem umlykur þennan dásamlega og margslungna ilm. Þetta er ilmur sem hittir alveg á “sweetspottið” mitt, ilmur sem ég ætti hreinlega erfitt með að standast. Það er þurrt í munni með þroskaðan ávöxt í lykilhlutverki og er það einkennilega búttað miðað við það sem nefið gaf til kynna. Hin dæmigerða Riesling sýra gerir það sem hún á að gera og lyftir víninu upp en það er engu að síður smá þyngsl sem truflar. Ekki misskilja mig, þetta er frábært vín en þessi þyngsl draga það aðeins niður. Mun fara vel með gljáðum lax, bragðmiklu sushi eða jafnvel góðu risottó.
(89/100)