Rolland Gallarreta Tempranillo Merlot 2018

Michel Rolland þarf vart að kynna fyrir hinum almenna vínnörd en hann er nokkurs konar rokkstjarna vínheimsins sem einn eftirsóttasti vínframleiðsluráðgjafi bransans og eru kúnnar hans meðal annars stærstu nöfn Bordeaux og Napa. Jarvier Gallarreta er svosem ekki minna nafn þó svo að alþjóðleg stjarna hans skíni ekki jafn skært. Hann er stofnandi og framkvæmdastjóri ARAEX hópsins sem er móðurfélag nokkurra af frambærilegustu víngerðum Spánar og má þar nefna sem dæmi Pago de Cirsus, Luis Canas og Villa Conchi sem hefur heillað margan Íslendingin. Hér er á ferðinni samstarf þeirra í Ribera del Duero og er vínið blanda af Tempranillo (85%) og Merlot (15%) sem kemur frá vínekrum sem eru ræktaðar í um 900 metra hæð, sem gerir mikið fyrir ferskleika vínsins og leyfir þrúgunum að þroskast í lengri tíma en ella. Vínið fær svo að þroskast í um 10 mánuði í frönskum eikartunnum til að öðlast ögn meiri dýpt.

Vínið er vel dimmrautt á litinn og tekur opinn og hlýlegur afskaplega vel á móti manni með aðaláherslu á milda tunnutóna á borð við vanillu og kókós en skammt undan er súkkulaðihúðaðar appelsínur. Við smá öndun bætast kryddaðir tónar við og ber þar helst að nefna negul og kanil og síðast en ekki síðast mæta passlega þroskaðir og bústnir rauðir ávextir á svæðið. Þegar allir eru loks mættir verður til afskaplega góð heild sem ætti að heilla marga. Þetta er kröftugt en á sama tíma milt vín með góða byggingu, nokkuð búttuð tannín og langt eftirbragð. Það mundi helst parast með rauðu kjöti á borð við nauta ribeye.

Verð: 3.999 kr
Frakkland mætur Spán í
4

(89/100)

You might be interested in …

Leave a Reply