Tenuta Pianirossi Sidus Montecucco 2017

Tenuta Pianirossi er verkefni sem var sett á laggirnar fyrir um 20 árum og drifið áfram af ástríðu og dálæti Stefano Sincini á Maremma svæðinu í Toskana. Eignin telur í dag um 25 hektara í Montecucco vínræktarsvæðinu og af þeim eru 14 nýttir undir vínvið. Þar fer auðvitað einna mest fyrir Sangiovese en einnig eru alþjóðlegri þrúgur nokkuð áberandi og er ekki óalgengt að vínin taki áþekka stefnu í stíl og Súper Toskana vín. Þetta vín er þó afskaplega ítalsk inn að dýpstu sálarrótum og er blanda af Sangiovese og Montepulciano þar sem hin fyrrnefnda er í örlitlum meirihluta. Vínið fær svo að dvelja í tæpt ár á stórum 500l eikartunnum áður en það er loks sett á flösku og dreift um öll heimshorn.

Vínið er nokkuð dimmrautt á litinn en það farið að örla fyrir brúnleitum tóna. Ilmurinn er opinn og nokkuð djúpur og tekur hlýlega á móti manni með eins klassísk Sangiovese einkenni og hægt er að finna. Dæmigerð kirsuber í bland við plómur, krækiber og jarðarber eru áberandi í fyrstu en fljótlega sprettur fram ferskt tóbak og þurrkaðar kryddjurtir sem styðja hressilega við bakið á ávextinum. Í munni er það miðlungs bragðmikið, frekar þétt og með góða sýru til að bera vínið uppi og gera þroskuð (mjúk) en nokkuð áberandi tannín það að verkum að þetta er afskaplega matarvænt vín. Þroskaðir tónar eru áberandi í bland við afskaplega fínlega eikartóna og mundi ég segja að þetta væri akkúrat á besta stað einmitt núna. Drekkið þetta með góðu lambakjöti og njótið.

Verð: 3.590 kr
Fallega þroskað og klassískt vín sem hefur allt sem gott Toskanavín hefur upp á að bjóða
4

(89/100)

You might be interested in …

Leave a ReplyCancel reply

Discover more from Vínsíðurnar

Subscribe now to keep reading and get access to the full archive.

Continue reading