Það er ekkert óalgengt að vínhús leiða saman hesta sína og koma verkefni á laggirnar sem er ætlað að nýta þekkingu og reynsly annars aðilans (oftast vínhús í Evrópu) og einstakt terroir og framsækni hins aðilans (oftast vínhús í Ameríku). Fræg dæmi um þetta eru t.d. Opus One og Cheval des Andes. Hér erum við með eitt slíkt sem er ekkert af verri gerðinni, á pappír allavega, og er það Domaines Baron Rothschild (Lafite) og Catena fjölskyldan sem leiða saman hesta sína. Hugmyndin verð til rétt fyrir aldamót og sameinar gríðarlega þekkingu Catena fjölskyldunnar á Malbec þrúgunni, ásamt þekkingu á terroir í Mendoza, við aldalanga reynslu Rothschild fjölskyldunnar þegar kemur að víngerð, ræktun og blöndun á þrúgum. Útkoman er Caro, í þessu tilfelli litli Caro, sem er blanda af Malbec (64%) og Cabernet Sauvignon (34%) og kemur ávöxturinn frá hinum rómuðu Luján de Cujo og Maipú vínræktarsvæðum.
Vínið er dimmrautt á litinn og gefur vel til kynna það sem koma skal. Ilmurinn er opinn og sýnir Malbec allar sínar bestu hliðar með safaríkum plómum, sólberjum, krækiberjum, dass af fjólum, súkkulaði, léttri eik og kemur mildur kryddkeimur í lokin sem breikkar ilminn verulega. Í munni er það þétt og nokkuð kraftmikið með flottri sýru og nokkuð ákveðin tannín. Eftirbragðið er langt og hangir það á góðum ávexti Malbec þrúgunnar. Þetta er enn nokkuð ungt og finnst mér vanta örlitla fínpússun sem smá þroski í flöskunni ætti að hjálpa til með og á það inni nokkra punkta af þeim sökum. Mundi umhella þessu ef þið nennið ekki að bíða og drekkið þetta svo með góðri ribeye steik.
(88/100)