Carodorum Issos Crianza 2018

Bodegas Carodorum er tilturlega ung, fjölskyldurekin víngerð sem er staðsett í hjarta Toro víngerðarhéraðsins. Vínekrur Bodegas Carodorum eru nánast einungis plantaðar með Tinta de Toro, sem flestir mundu þekkja sem Tempranillo, og eru þær afar vel staðsettar þar sem þær liggja við bakka Duero (sem fær auðvitað nafnið Douro um leið og hún rennur inn í Portúgal). Vínunum þeirra er ætað að draga fram eiginleika hverrar vínekru fyrir sig og fær Issos, sem er skilgreind sem Crianza, að dvelja í 10 mánuði í frönskum eikartunnum að lokinni gerjun.

Vínið er dimmrautt á litinn en unglegir fjólubláir taumar eru ennþá til staðar. Ilmurinn er pínu feiminn í byrjun og tekur rykugur jarðvegur á móti þér en eftir smástund í glasinu kemur Tinta de Toro fram í öllu sínu veldi. Þéttur og margslunginn ilmur af sólberjum, sætum jarðarberjum, appelsínuberki, þurrkuðum kryddjurtum og vott af balsamík fer á loft ásamt ljúfum vanillu-, og kókóstónum eikarinnar sem mýkir ilminn verulega. Í munni er það þéttbyggt og ansi kröftugt með mild en töluverð tannín. Þetta er afskaplega stórt og mikið vín en á sama tíma mjög vinalegt og ætti þetta að falla vel í geðið á okkur Íslendingum sem upp til hópa elskum stór, mikil og eikuð vín. Mæli með að drekka þetta með góðri nautalund.

Verð: 3.491
Stórt og vandað vín sem er afskaplega aðgengilegt og ljúft, þrátt fyrir stærð sína og kraft.
4.5

(91/100)

You might be interested in …

Leave a Reply