Max Ferd. Richter Riesling Classic 2021

Ég hef oft lýst áðdáun minni á Riesling og fyrir þá sem misstu af þá hripaði ég nokkur orð um þessa glæsilegu þrúgu sem oft er kölluð drottning þrúganna. Það sem gerir hana svo magnaða er hversu ilmrík hún er ásamt því hversu sýrurík hún getur verið. Báðir þessir eiginleikar gera það að verkum að bæði einföldustu vín úr þrúgunni sem og hin flóknu verða mögnuð, hver á sinn hátt. Svo eru líka sætvínin úr Riesling sem eru efni í heila grein. Hér erum við með grunn Riesling frá einum rótgrónasta framleiðanda Mosel dalsins í Þýskalandi og kemur ávöxturinn frá hinum ýmsu ekrum víngerðarinnar sem er svo blandað saman í eitt “cuvée”, ef svo má segja.

Vínið er fölgyllt að sjá og er ilmurinn galopinn og afskaplega gestrisinn. Klassísk Riesling einkenni á borð við sítrus, apríkósur og hunang eru í aðalhlutverki og þó svo að vel sé leitað þá er þetta þrennt í raun uppistaðan. Hins vegar er þessi einfaldleiki fallega fram settur og aðlaðandi. Í munni er það nokkuð bragðmikið með smá sætuvott á tungunni en hin líflega Riesling sýra kemur sterk inn á móti og balanserar þetta út. Þetta er vín sem er gríðarlega auðvelt að drekka eitt og sér en það má líka njóta með ýmsum ostum eða jafnvel einföldum laxréttum.

Verð: 3.200 kr
Einfalt með smá sætuvott sem er í fullkomnu lagi þar sem að sýran balanserar þetta. Virkilega auðdrekkanlegt!
4

(86/100)

You might be interested in …

Leave a Reply