Domaine Bernard Defaix Chablis 2020

Chablis, rétt eins og önnur vínræktarsvæði á “norðlægari” slóðum, hefur átt í töluverðum vandræðum með uppskeru síðustu ár og hefur næturfrost á vormánuðum verið vondi kallinn í þeim efnum. Þetta hefur leitt til þess að slegist hefur verið um það magn sem hefur verið framleitt og margir setið uppi með skort á Chablis vínum. Hins vegar slapp 2020 árgangurinn ágætlega og flestir framleiðendur náðu góðri framleiðslu af heilbriðgum og glæsilegum vínum. Ekki var sama upp á teningnum árið eftir og ættu því fólk að næla sér í birgðir. Þetta vín er auðvitað gert úr Chardonnay og er það gert án viðkomu eikar til þess að leyfa þrúgunni að skína sitt skærasta, sem hún vissulega gerir í Chablis.

Vínið er fallega ljósgyllt á litinn og nokkuð opið í byrjun. Það opnast þó almennilega eftir smá öndun og kemur í ljós afskaplega margslunginn og bjartur ilmur í ljós. Græn epli, pera, sítrusávöxtur, hunang og steinefni ráða ríkjum en allt er þetta í fullkomnu jafnvægi. Þetta er geggjaður ilmur og ef ég á að reyna að persónugera ilminn þá mundi ég nota lýsingarorð á borð við “snyrtilegt” og “vel til haft” til að lýsa því. Vínið heldur svo áfram og sömu braut og er það ansi þétt í munni, stílhreint og með skarpa sýru til að halda því uppi. Þetta er gríðarlega vel gert vín sem hefur allt – góða byggingu, frábært jafnvægi og gott boddí. Ein bestu kaupin í hvítvínum í dag að mínu mati og mæli ég eindregið með að þið tryggjið ykkur nokkrar flöskur af þessu frábæra víni því það er ómögulegt að segja hvort við sjáum næsta árgang af þessu hér á landi. Drekkið t.d. með hvítum fiskréttum með hollandaise sósu.

Verð: 3.690 kr
4.5

(92/100)

You might be interested in …

Leave a Reply