Bulas Grande Reserva 2011

Það er algeng spurning á námskeiðum hjá mér hvort að öll vín verði betri með aldrinum og er stutta svarið við því að það fer alveg eftir smekk. Ég bendi fólki á að vínin breytast með tímanum og hið rétta sé að vín breytast vissulega og það sé svo smekkur hvers og eins sem segir til hvort þeim finnist breytingin góð. En það er oft erfitt að gefa fólki gott dæmi um vín sem er fallega þroskað og sýnir þessa breytingu án þess að vera þreytt eða farið að oxast. Hér er hins vegar frábært dæmi um fallega þroskað vín. 100% Touriga Nacional sem fær að þroskast í 14 mánuði á frönskum eikartunnum en er svo greinilega búið að fá sæmilega geymslu hjá framleiðandanum eftir að það fór í flöskur. Það eru engin þreytumerki á víninu þrátt fyrir að vera korter í táningsaldurinn og er greinilegt að uppeldið hefur verið gott.

Vínið er dökkrautt en er farið að glitta í brúnleita tóna í geislabauginum sem kemur frá þroska vínsins. Í nefi er það afskaplega opið og fallega þroskað með glás af hálf sultuðum ávexti, döðlum, lakkrís, kaffi, súkkulaði, kryddum balsamik, sedrusvið og léttum kryddum í bakgrunninum. Gríðarlega ljúfur og margslunginn ilmur sem er vel hægt að gleyma sér í. Algjört nammi. Það er bragðmikið en silkimjúkt í munni með fínleg og vel þroskuð tannín sem leika um tunguna. Jafnvægið er eins og best er á kosið, eftirbragð langt og endar það á fallegum og vel þroskuðum ávextinum. Ef þú hefur einhvern tímann pælt í því hvernig þroskað vín bragðist þá mæli ég eindregið með þessu.

Verð: 5.975 kr
4.5

(94/100)

You might be interested in …

Leave a Reply