Beaujolais Nouveau

Í dag er fimmtudagurinn 17. Nóvember og er þetta þriðji fimmtudagur Nóvember mánaðar, sem í sjálfu sér er ekkert stórmerkilegt nema að þú eigir afmæli. En fyrir vínáhugafólk hefur akkúrat þessi þriðji fimmtudagur í Nóvember alltaf verið svolítið skemmtilegur, því að það er dagurinn sem Beaujolais Nouveau kemur á markað. Á alþjóðavísu. En Beaujolais Nouveau dagurinn hefur munað fífil sinn fegri og eru sorglega fáir sem vita hreinlega hvað Beaujolais Nouveau er og enn færri sem eru meðvitaðir um þennan skemmtilega dag. Sem betur fer er ákveðinn meðbyr í seglum Beaujolais héraðs þessa dagana og er það von mín að sá meðbyr kippi Nouveau með sér í leiðinni.

Le Beaujolais Nouveau est arrivé!

Flest öll vínræktarhéruð eru með sitt uppskeruvín, vín sem er sett á flöskur (eða plastbrúsa) um leið og gerjun er lokið – örfáum mánuðum eftir uppskeruna. Þegar það er klárt er oft haldin uppskeruhátíð þar sem þetta fyrsta vín uppskerunnar er drukkið ótæpilega og er magnið látið trompa gæðin. Í grunninn er Beaujolais Nouveau þetta – uppskeruhátíðarvín. En í kringum 1950 fékk einhver þá ágætu hugmynd að reyna að græða pening á þessu og úr varð markaðsherferð sem miðaði að því að framleiðendur kepptust við að vera fyrstir til að koma Nouveau víninu sínu á Bístróa Parísarborgar. Sá snjóbolti varð ansi fljótur að stækka þegar Georges Duboeuf setti sína markaðsvél í gang og úr varð einkennisorð Beaujolais Nouveau “Le Beaujolais Nouveau est arrivée”, sem er enn þann dag í dag notað grimmt. Það leið ekki á löngu þar til að þessi saklausa hugmynd um kapphlaup væri komið í öfgana þar sem að það teygði anga sína út fyrir Frakkland og voru heilu flugvélarnar leigðar sérstaklega til að koma Nouveau til Asíumarkaða og Bandaríkjanna. Fyrir marga var þetta eitt stærsta og skemmtilegasta partí ársins. Fyrir framleiðendur var þetta það besta sem gat komið fyrir þá. Þarna voru þeir að selja stóran hluta framleiðslu sinnar nokkrum mánuðum eftir uppskeru í stað þess að þurfa að bíða í marga mánuði, og jafnvel ár, eftir að vínið yrði tilbúið. Peningaflæðið varð gríðarlega jákvætt og partíið þeirra var ekkert minna en neytandans.

Le Beaujolais Nouveau est fini

En fljótlega gerðist það sem gerist svo oft þegar eitthvað malar gull. Framleiðendur urður gráðugir og fóru að gera alls konar kúnstir í víngerðinni til að auka magnið – á kostnað gæðanna auðvitað. Það færðist t.d. í aukana að leyfa vínviðnum að framleiða fleiri ber og að bæta við miklum sykri fyrir gerjun til að hífa upp áfengismagnið. Það leið ekki á löngu þangað til að vínnördar, sem og venjulegir neytendur, áttuðu sig á hruni í gæðum og rétt upp úr aldamótunum sprakk Nouveau blaðran. Salan hrundi og tilhlökkunin eftir þriðja fimmtudegi Nóvembermánaðar fjaraði að miklu leyti út. Vínframleiðendur í Beaujolais fengu harkalegann skell og margir þeirra fóru rakleiðis á hausinn meðan að aðrir náðu að aðlagast breyttu umhverfi. Eitt var samt á hreinu, partíið í Beaujolais var búið. Í bili.

Í dag er ný kynslóð að taka við keflinu í Beaujolais og virðist sú kynslóð vera staðráðinn í að læra af mistökum forvera sinna. Gæðin eru heldur betur farin að segja til sín og þá sérstaklega í Cru Beaujolais vínum héraðsins. Það er einlæg von mín að sá metnaður skili sér líka í Nouveau á næstu árum því gott Nouveau er yndislegt.

Því miður er úrvalið í Vínbúðunum ekki alveg upp á marga fiska og greinilegt að birgjar treysta sér ekkert sérstaklega mikið til að selja Beaujolais Nouveau en það er þó eitt sem stendur okkur til boða, Trenel Beaujolais Nouveau 2022, sem ég hvet ykkur til að smakka.

You might be interested in …

Leave a ReplyCancel reply

Discover more from Vínsíðurnar

Subscribe now to keep reading and get access to the full archive.

Continue reading