Ef það er einhver áfengur drykkur sem Skandínavar eiga skuldlaust þá er það ákavíti. Fyrstu skriflegu heimildirnar um ákavíti er að finna í bréfi frá dönskum aðalsmanni til erkibiskupsins í Noregi árið 1531 og er þar talað um drykk sem er nefndur aqua vitae á latínu, eða vatn lífsins. Þar er talað um að drykkurinn sé meðal við alls konar kvillum, bæði innvortis og útvortis, og með bréfinu fylgdi kassi af þeim töfradrykk. Þó að heilsubætandi áhrif drykkjarins hafi kannski ekki verið vísindalega sönnuð á þeim tíma er þó staðreynd að hann auðveldar meltingu þungrar máltíðar og svo hefur sennilega ekki skemmt fyrir að hann hressir lund manna.
Drykkurinn er yfirleitt framleiddur úr korni eða kartöflum, oftast kryddaður með kúmeni eða dilli (þó svo að önnur krydd séu einnig notuð) og er framleiðsluaðferðin ekkert ólík þeirri er notuð er við framleiðslu gins. Oftast er ákavíti látið þroskast á eikartunnum í marga mánuði til að gefa því mildara bragð og dekkri lit. Norðmenn hafa gengið skrefinu lengra í gegnum tíðina og láta svokallað Linie-ákavíti ferðast í notuðum sérrítunnum sjóleiðis niður fyrir miðbaug og til baka. Þetta ferðalag gefur, samkvæmt framleiðandanum, drykknum sérstakt bragð þar sem tunnurnar ganga í gegnum mikinn buslugang á sjó í alls konar veðrum. Við Íslendingar eigum að sjálfsögðu okkar ákavíti en við kjósum að kalla það brennivín.
Þar sem jólin eru á næsta leiti ákváðum við að hóa saman nokkrum áhugamönnum og gera örlitla úttekt á þessum skandinavíska drykk sem við kjósum yfirleitt að drekka þegar hinn þungi jólamatur er á borðstólum. Það má segja að væntingarnar voru ekki miklar og mögulega gamlir fordómar sem réðu ferðinni en það er nokkuð ljóst að þessir fordómar heyra sögunni til eftir þetta smakk. Ákavíti
og brennivín, tunnuþroskað eða ekki, er einfaldlega geggjaður drykkur.
Hér eru nokkur ákavíti sem Vínsíðurnar mæla eindregið með:

Aalborg Dild
Alveg glært og því engin tunnumeðferð á þessu. Ilmurinn gríðarlega ferskur þar sem hið yndislega dill ræður ríkjum ásamt léttum sítrustónum. Virkilega skemmtilegur ilmur. Þétt og frekar bragðmikið í munni en afskaplega milt með dill aftur í aðalhlutverki. Afar skemmtileg útgáfa af ákavíti sem einblínir á ferskleika kryddjurtanna sem eru notaðir. Eitt af mínum uppáhalds og mundi það sennilega steinliggja með rækjubrauði eða síldarsalati. Kaupa hér.

Jólabrennivín 2022
Annað sem er í miklu uppáhaldi. Þetta brennivín er búið að dvelja í 3 og hálft ár í notuðum sherry tunnum sem gefur því vel slípaða sætu sem rennur fallega saman við hið sígilda kúmen brennivínsins. Tunnan kemur svo gríðarlega sterk inn í munni og gerir þetta brennivín ótrúlega rúnað og bragðmikið. Geggjaður “sipper” en líka virkilega gott með kryddsíld og jafnvel bragðmeiri kjötréttum. Kaupa hér.

Aalborg Jóla Akvavit 2022
Kröftugur og vel kryddaður ilmur. Sami dill- og kúmentónn sem hefur loðað við flest ákavítið sem við höfum smakkað ásamt jólalegri brögðum á borð við appelsínu, negul og kóríander. Greinilega verið að stíla meira inn á jólalegri krydd. Í bragði kemur kúmenkarakterinn vel fram í annars mjög bragðmiklum og frekar sprittuðum karakter. Mundi örugglega henta vel með bragðmeiri mat á jólahlaðborðinu, t.d. heitri kæfunni. Kaupa hér.

Brennivín
Gamla góða Brennivínið. Uppruninn. Það er ekki hægt að tala um þennan flokk án þess að minnast á Brennivínið. Mikil og einkennandi kúmenlykt og smávegis sprittkarakter. Sætuvottur í munni og aftur mjög svo einkennadi kúmenkarakter sem er í algjöru aðalhlutverki. Nokkuð ljúft, sem kom skemmtilega á óvart, því minningin var allt annað en ljúf. Ætla að varpa því fram hér, Brennivín er vanmetinn drykkur! Kaupa hér.