Skyrjarmur og enn meiri Skyrjarmur

Skyrgámur ver áttundi jólasveinninn sem kemur til byggða samkvæmt þjóðsögum Jóns Árnasonar en einnig gengur hann undir nafninu Skyrjarmur. Skyrjarmur er víst stór, sterklegur og sólginn í skyr sem útskýrir nafn hans. Hann leitar upp skyrtunnur og étur úr þeim, þar til hann stendur á blístri. Jóhannes úr Kötlum orti eftirfarandi um hann:

Skyrjarmur, sá áttundi,
var skelfilegt naut.
Hann hlemminn o’n af sánum
með hnefanum braut.
Svo hámaði hann í sig
og yfir matnum gein,
uns stóð hann á blístri
og stundi og hrein.

Jóhannes orti hins vegar ekkert um það hvort að þessi stæðilegi jólasveinn hafi haft dálæti á bjór en vissulega er Skyrjarmur og Skyrjarmur Skyrjarmur frá Borg Brugghús óður til hans. Skyrjarmur, sem kom fyrst á markað árið 2018, er súrbjór sem var upprunalega ketilsýrður með skyri, sem þýðir að skyri er bætt í meskinguna og látið liggja við ákveðið hitastig í sirka sólahring þannig að mjólkursýrugerlar fjölga sér og gera bjórinn súrann. Í dag hefur skyrið þó fengið að víkja fyrir ögn áreiðanlegri aðferðir og einnig hefði þurft ótæpilegt magn af skyri til að standa undir framleiðslunni í ár og ekki víst að Skyrgámur hefði haft eitthvað upp úr því að stelast í skyrtunnur landsins. Hann er svo bragðbættur með óhóflegu magni af bláberjum til að ná fram sætu sem mótvægi við sýruna, því að það þarf jú að huga að jafnvæginu. Hin tilturlega lága áfengisprósenta gerir bjórinn einstaklega auðdrekkanlegan og minnir eiginlega mest á bláberjasmoothie, sem er mjög jákvætt- ekki misskilja mig. Skyrjarmur Skyrjarmur, sem kom á markað í fyrra, er svo allt þetta nema tvöfaldað, eins og nafnið gefur til kynna. Meira skyr, meiri bláber, hærri áfengisprósenta og meira smoothie. Eins auðdrekkanlegur og Skyrjarmur er þá er Skyrjarmur Skyrjarmur enn auðdrekkanlegri, sem er galið og í raun stórhættulegt.

Báðir bjórar eru algjörlega frábærir og ómissandi í aðdragandi jólanna að mínu mati. Þökk sé góðri sýru þá sóma þeir sig vel með mat en eru líka gómsætir einir og sér. Mundi helst mæla með að drekka þá með grafinni villibráð eins og t.d. gæs og til þess að setja punktinn yfir i-ið þá hefurðu bláber, eða bláberjasultu, með því.

You might be interested in …

Leave a Reply