Áður en lengur haldið er gott að hafa eitt á hreinu. Ég er alls enginn sérfræðingur um viskí og er ég í raun í besta falli áhugamaður sem hefur lesið sig aðeins til um þennan magnaða drykk. Ég man það vel þegar ég var nýorðinn tvítugur og ákvað einn daginn á leið heim frá Kaupmannahöfn að nú skyldi ég vera svolítið fullorðins og kynna mér viskí. Ég fór auðvitað í fríhöfnina og nældi mér í viskíflösku sem leit ágætlega út og dreif mig heim. Seinna um kvöldið snéri ég mér fullur eldmóð að nýja áhugamálinu og bauð nokkrum vinum í viskísmakk. Við helltum okkur í glas og vorum fullir tilhlökkunar þegar við fengum okkur fyrsta sopann. Það má með sanni segja að þessi eini sopi slökkti snarlega í eldmóðnum því ég hafði í sakleysi mínu keypt mér flösku af Bowmore Cask Strength, sem er enn þann dag í dag eitt það erfiðasta sem ég hef smakkað, og það var engu líkara en að það hefði reiður rauðhærður skoti í fullum skrúða stokkið upp úr glasinu og kýlt okkur félagana kalda.
En þrátt fyrir þessa eldskírn gaf ég þessu annað tækifæri og tók fljótlega viskí í sátt en léttvínin áttu þó áfram allan minn hug. Það vakti þó athygli mína þegar ég fékk boð um að hitta Jake Saunders, sölustjóra Tamnavulin á norðurlöndunum, þar sem að þeir hafa verið að þróa línu af viskíum sem fá m.a. að þroskast í notuðum rauðvínstunnum frá Bordeaux, Tempranillo tunnur frá Rioja og síðast en ekki síst Sauvignon Blanc tunnur frá Bordeaux.

Tamnavulin er staðsett í þorpinu Tomnavulin, í hjarta Speyside, og var stofnað árið 1966. Á þeim árum var gríðarleg eftirspurn frá stærri framleiðendum, eða réttara sagt blöndurum þar sem að meginþorri “framleiðslunnar” voru blönduð viskí. Tamnavulin seldi alla sína framleiðslu til slíkra fyrirtækja, þar á meðal Whyte & Mackay. Tamnavulin var svo keypt af Whyte & Mackay árið 1993 en tveimur árum síðar var Tamnavulin lokað og framleiðslu hætt. Það var svo ekki fyrr en árið 2007 sem eignarhald Whyte & Mackay breyttist að Tamnavulin var tekið rækilega í gegn og framleiðsla hófst að nýju, nú undir eigið vörumerki.
Í dag eru framleidd afskaplega áhugaverð viskí og er markhópur Tamnavulin ekki endilega viskínördar, heldur nýgræðingar en einnig vínáhugafólk. Þess vegna hafa þeir hafið ansi metnaðarfullt tunnuprógram í samstarfi við ónefndan vínframleiðanda í Médoc en einnig eru þeir í samstarfi við víngerð í Rioja og tunnugerð í Jerez. Það vakti athygli mína að ekkert af viskíunum þeirra er aldurstilgreint en það samræmist stefnu þeirra um að framleiða vel gerð og áhugaverð viskí sem hver sem er getur notið. Það er þó aldrei að vita nema að við fáum að sjá 12 eða 15 ára viskí frá þeim á næstu árum, Jake sló það allavega ekki út af borðinu.

Ég smakkaði Tamnavulin Red Wine Cask Edition og verð ég að segja að mögulega hefði þetta verið viskíið sem hinn tvítugi ég hefði átt að byrja á. Þroskað í hefðbundnum Bourbontunnum til að byrja með og klárað í Cabernet Sauvignon frá ónefndum (en virtum er mér sagt) vínframleiðanda í Médoc. Þetta er gríðarlega mjúkt og aðgengilegt viskí sem er með öll hin klassísku element sem viskí hefur upp á að bjóða, t.d. þurrkaðir ávextir, karamella og vanilla, en ofan á það koma rauðir ávextir sem klárlega koma frá rauðvínstunnunni. Þetta gefur viskíinu auka breidd og eilítið vingjarnlegri nærveru en hið bálreiða Cask Strength frá Bowmore. Mæli eindregið með.
Tamnavulin Red Wine Cask Edition fæst í Vínbúðunum og kostar litlar 10.499 kr.