Ég er mikill aðdáandi Beaujolais vína, sama hvort um er að ræða Beaujolais Villages eða Cru Beaujolais. Meira að segja Beaujolais Nouveau vín eiga sinn stað og sína stund. Dásamlega frísklegur og bjartur ávöxturinn í vel gerðu Beaujolais ásamt mildum kryddum, blómlegum tónum og dass af góðri sýru gera þessi vín svo ótrúlega aðlaðandi og nánast ómótstæðileg. Jafnvel það aðlaðandi að það nær nánast engri átt að setja þessi vín í “vínkjallarann” í þeim tilgangi að láta þau þroskast og mögulega er það einmitt ástæðan fyrir því að almennt sé ekki mikið talað um þroskuð Beaujolais vín. Sumir vínnöllar ganga meira að segja það langt að segja að Beaujolais þoli alls enga geymslu og eigi að drekkast innan fárra ára. Sú alhæfing stenst hins vegar ekki skoðun þó svo að ég sé auðvitað sammála því að drekka Beaujolais innan nokkura ára en aðallega vegna þess að þau eru svo ótrúlega ljúffeng á sínum fyrstu árum eins og fyrr sagði. Það er staðreynd að vín frá hinum helstu vínræktarsvæðum Beaujolais, svokölluð Cru Beaujolais, þroskast tignarlega. Vincent Delcher, yfirmaður útflutnings hjá Louis Jadot, nefndi við mig að hann hefði fyrir stuttu smakkað nokkuð gamla árganga af Beaujolais og það hefði komið honum virkilega á óvart hversu fersk þau hefðu verið og hefði hann ekki vitað betur þá hefði hann haldið hann um væri að ræða þroskuð Pinot Noir vín úr efri hillu Búrgúndí.
Ég var einmitt svo heppinn að fá í hendurnar kassa sem innihélt 6 flöskur af mismunandi árgöngum frá hinu frábæra Château des Jacques í Beaujolais og voru 5 þeirra frá ekrum framleiðandans í Moulin-à-Vent og það sjötta frá hinu þekkta Lieu-dit Côte du Py sem staðsett er í Morgon. Þetta voru nokkuð þroskuð vín og sem dæmi var yngsta vínið 2006 Côte du Py og elsta vínið 1997 Moulin-à-Vent. Ég vissi að þetta væri verkefni sem þyrfti á góðri liðsheild að halda og því bauð ég nokkrum að reyndari vínsmökkurum landsins að smakka þetta í með mér.
Við ákváðum að smakka vínin í hækkandi aldursröð og byrjuðum því á hinu rúmlega 16 ára gamla Chateau des Jacques Morgon Côte du Py 2006. Allt voru þetta virkilega áhugaverð vín, auðvitað misgóð eins og gengur og gerist, en það sem sló okkur mest var að því eldri sem vínin urðu því “yngri urðu þau, ef svo má segja. Sigurvegarar kvöldsins voru Chateau des Jacques Moulin-à-Vent 2003 og Chateau des Jacques Moulin-à-Vent Clos des Thorins 1997 að ógleymdu anda confitinu sem við borðuðum með þessu, sem passaði afskaplega vel með vínunum. Hér er smá samantekt á þessum vínum.
Chateau des Jacques Morgon Côte du Py 2006
Frekar lokað til að byrja með og ávöxturinn afskaplega hljóðlátur. Jörð, hrátt kjöt, soja og bökunarkrydd áberandi til að byrja með. Með smá öndun kom fram kaffitónar ásamt dökku súkkulaði fram en meira gerðist ekki. Ennþá góð sýra í munni og ótrúlega þétt tannín miðað við aldur. Dökkur ávöxtur skreið fram undir lokin. Síðsta vínið í smakkinu en mögulega var það að ganga í gegnum lokað tímabil sem mörg vín ganga í gegnum. Nokkur ár í viðbót og aldrei að vita nema að það springi út.
Chateau des Jacques Moulin-à-Vent Clos du Grand Carquelin 2005
Töluvert opnara og ferskara en Côte du Py 2006 og greinilega komið úr lokaða tímabilinu sínu. Rauður ávöxtur ágætlega áberandi en þó er þroskaður tónn í þeim. Mild krydd styðja við bakið á honum ásamt dass af jörð og vottur vel hangnu kjöti. Fínlegt, létt og ferskt í munni með góð en þroskuð tannín og kom eiginlega á óvart hversu hraustleg þau eru ennþá. Skógarbotninn farinn að læðast inn í lokinn. Virkilega skemmtilegt vín sem hefur þroskast yndislega. Á ennþá nokkur ár inni en flott núna.
Chateau des Jacques Moulin-à-Vent 2003
Galopið og hefur ekkert að fela. Ávöxturinn er fáránlega bjartur og ferskur og ekki að finna að þetta vín sé nánast komið með aldur til að versla í ríkinu. Virkilega líflegt og glæsilegt á sama tíma og það er þroskað og tignarlegt. Magnað. Í munni er það einfaldlega magnað með tannín sem eru svo fínleg að þú finnur varla fyrir þeim en það er samt svo greinilegt að þau séu til staðar. Sýran er líka á góðum stað og ásamt þessum fínlegu tannínum myndar hún magnaða byggingu vínsins. Eftirbragðið langt og endar það á skógarbotn og sveppum, sem eru klassísk einkenni þroskaðra Pinot Noir vína. Geggjað.
Chateau des Jacques Moulin-à-Vent Clos de Rochegres 2002
Korkað. You win some you lose some.
Chateau des Jacques Moulin-à-Vent 1999
Aftur, ótrúlega ferskt og unglegt. Ávöxturinn rauður, auðvitað nokkuð þroskaður, en einkenndist af hindberjum og jarðarberjum. Skógarbotninn ásamt öllum trufflunum vel áberandi og jarðvegur, blóm og mild krydd í bakgrunni. Létt í munni og vantar smá kjarna en tannín ennþá vel starfhæf ásamt góðri sýru. Fínlegt og þokkalega langt en klárlega á síðustu metrunum.
Chateau des Jacques Moulin-à-Vent Clos des Thorins 1997
Að mínu mati sigurvegari kvöldsins, þó svo að það hafi ekki verið algjör eining um þá skoðun. Opið og fullkomnlega þroskað með rauðum ávöxtum í fullkomnu magni sem blandast ótrúlega fallega saman við skógarbotninn, sveppina, trufflurnar, lakkrísinn og jarðveginn. Þroskinn fullkominn og tignarlegur. Ótrúlegt hvað það er massað, þetta gamalt, og eru tannínin og sýran algjörlega “on point”. Ávöxurinn er svo líflegur að það er lýgilegt og eftirbragðið heillar mann í meira en drykklanga stund. Ég vildi svo innilega að ég ætti fleiri svona flöskur.
