Site icon Vínsíðurnar

Þrúgur heimsins: Furmint

Ég held að það sé óhætt að segja að fáar þrúgur hafa gefið af sér jafn mögnuð vín án þess að baða sig í sviðsljósinu eins og Furmint hefur gert og ég er nokkuð viss um að fáir hafi yfir höfuð heyrt um Furmint. Þrúgan er upprunin í Ungverjalandi og hefur í gegnum aldirnar gefið af sér stórkostlegustu sætvín sem þessi heimur hefur upp á að bjóða, Tokaji Aszú, en einnig eru að finna þurr Furmint hvítvín sem hafa verið að sækja í sig veðrið síðustu árin. Tokaji Aszú vínin verða til líkt og sætvínin frá Sauternes t.d. þar sem eðalmygla (botrytis cinerea) verður til og þurrkar berin þannig að safi þeirra verður dísætur.

Nýlegar DNA rannsóknir benda til þess að Furmint sé afkvæmi hinnar óþekktu en gríðarlega mikilvægu (í sögulegu samhengi) Gouais Blanc, sem gerir Furmint að “hálfsystkini” Chardonnay, Gamay og Riesling svo eitthvað sé nefnt.

Hvar

Furmint er aðallega ræktuð í Ungverjalandi og þá sérstaklega í Tokaj héraði í N-Austur hluta landsins. Þar telur hún um 97% af vínvið sem þar er ræktaður en einnig er hún ræktuð í einhverju magni í Somló héraði í vestur hluta Ungverjalands. Það tekur sig svo varla að telja upp hvar hún er ræktuð annars staðar en í Ungverjalandi því aðeins eru nokkrir hektarar hér og þar í vínekrum Evrópu tileinkaðir Furmint. Það er aðallega í Slóveníu, Slóvakíu, Króatíu og Austurríki sem hún er ræktuð.

Hvernig smakkast

Furmint er afar fjölhæf og hefur terroir mikil áhrif á hana. Hún er, rétt eins og Riesling, nokkuð sýrurík sem er oftast en ekki það sem einkennir flest vín sem gerð eru úr þrúgunni – hvort sem þau eru þurr eða sæt. Þurru vínin geta verið allt frá því að vera einföld, ávaxtarík og aðlaðandi í að vera margslunginn og frískleg með ilm af grænum eplum, lime, sítrónu og oftar en ekki læðist kryddaðir tónar með. Hins vegar eru hin sætu Tokaji Azsú vín allt önnur skepna. Þar eru sætir tónar allsráðandi með hunangi, apríkósu, ferskjum, appelsínuberki, þurrkuðum ávöxtum, karamellu og engifer svo eitthvað sé nefnt. Þau vín eru, eins og áður sagði, afar sæt og margslungin en hin náttúrulega sýra Furmint gerir það að verkum að jafnvægið helst vel og eru þetta vín sem eru ótrúlega langlíf. Það er eiginlega ótrúlegt að þessi vín séu ekki vinsælli en raun ber vitni.

Matur og Furmint

Þurr Furmint vín passa afskaplega vel með feitari fiskréttum en einnig með góðum kjúklingaréttum en þó þarf að passa að meðlætið sé ekki of krefjandi. Sushi er líka skemmtilegur kostur. Þegar kemur að sætum Furmint vínum eins og Tokaji Aszú þá skal snúa sér að eftirréttum og sérstaklega þeim sem innihalda ávexti. Foie gras er svo einstaklega góður kostur og að lokum verður að nefna góðan gráðost.

Furmint í raun

Disznókö Tokaji Dry Furmint 2021
89/100

Fölgyllt á litinn. Vel opinn ilmur af frísklegum sítrusávexti og steinefnum í byrjun en fljótlega bætir í ávaxtaflóruna og mæta perur, ferskjur, gul epli og melónur á svæðið ásamt skvettu af hunangi í algjöru aukahlutverki. Í munni er það spriklandi ferskt og er sýran nokkuð öflug, án þess þó að trufla. Eplin eru orðin aðeins þroskaðri en í nefi og endar það á ljúfum hunangstónum. Flott bygging og mikið matarvín. Drekkið t.d. með lax eða öðrum feitum fiskum.

Verð 2.999 kr
Kaupið hér

Disznókó Tokaji Aszú 5 Puttonyos
95/100

Fallega gullið á litinn. Alveg galopið og tekur ótrúlega vel á móti þér með mögnuðum ilm. Þéttur og sírópskenndur ávöxtur þar sem kantalópumelóna, ferskja, apríkósa, ananas og mandarína eru í bunkavís ásamt ljúfum blómailm sem virkar eins og fallegur hjúpur utan um þennan magnaða ávöxt og setur punktinn yfir i-ið. Þetta er hnausþykkt og dísætt í munni en góð sýran sér til þess að þetta verði ekki væmið og flatt. Ávöxturinn er hinn sami í munni og var í nefi og er hægt að smjatta á þessu víni heila kvöldstund. Margslungið og magnað vín í alla staði

Verð 5.599 kr
Kaupið hér

Exit mobile version