Flores de Callejo 2021

Bodega Felix Callejo er miðlungs stór fjölskyldurekin víngerð sem var stofnað árið 1989 af Callejo hjónunum. Í dag hafa börnin þeirra, Beatriz, Noelia, José Félix og Cristina, tekið við stjórnartaumunum þar sem Noelia sér um vínviðinn og José Felix sér um víngerðina. Þetta er svo sannarlega fjölskylduvíngerð samkvæmt ströngustu skilgreiningum. Á þessum skamma tíma hefur þeim tekist að vekja mikla athygli á sér, eða réttara sagt vínunum sínum og er það engin furða þar sem að gæði og uppruni er í fyrirrúmi. Víngerðin er staðsett í DO Ribera del Duero.

Flores de Callejo mætti lýsa sem leið Callejo systkinanna til að sýna hina hráu, fersku og frumstæðustu birtingarmynd Tinto Fino þrúgunnar (eða Tempranillo eins og flestir þekkja hana sem). Vínviðurinn er tilturlega ungur og vex hann í sendnum og leikenndum jarðvegi í um 850 metra hæð. Hluti af víninu fær að dvelja í 5 mánuði í eikartunnum þannig að eikin sé í algjöru aukahlutverki og einkenni þrúgunnar fá að skína.

Vínið er dökkt yfirlitum og með nánast dimmbleikan geislabaug. Ilmurinn er opinn og gríðarlega mikill þar sem ávöxturinn tekur á móti þér með látum. Fersk bláber, sólber og sultaðar plómur eru í aðalhlutverki í upphafi en eftir smá þyrlun í glasi koma fram léttir eikartónar ásamt mildum kryddum og blómlegum tónum sem bindur ilminn vel saman. Í munni er þetta frekar öflugt með nokkuð áberandi tannín og góða sýru. Þrátt fyrir að vera kraftmikið þá nær það á einhvern hátt að vera nokkuð létt og ferskt, sem er gríðarlega skemmtilegt. Þetta er vissulega ekki dæmigert Ribera del Duero en þetta er vissulega hrá og fersk birtingamynd Tinto Fino, sem ég kann virkilega að meta. Þetta er frekar langt vín sem kallar klárlega á mat og mæli ég með grilluðu lambakjöti – til dæmis lambakonfekti frá Sælkerabúðinni.

Verð 3.790 kr

You might be interested in …

Leave a Reply