Bodegas Felix Callejo er miðlungs stór fjölskyldurekin víngerð sem var stofnað árið 1989 af Callejo hjónunum. Í dag hafa börnin þeirra, Beatriz, Noelia, José Félix og Cristina, tekið við stjórnartaumunum þar sem Noelia sér um vínviðinn og José Felix sér um víngerðina. Þetta er svo sannarlega fjölskylduvíngerð samkvæmt ströngustu skilgreiningum. Á þessum skamma tíma hefur þeim tekist að vekja mikla athygli á sér, eða réttara sagt vínunum sínum og er það engin furða þar sem að gæði og uppruni er í fyrirrúmi. Víngerðin er staðsett í DO Ribera del Duero.
Parajes de Callejo er blanda af Tinto Fino (Tempranillo), Garnacha og Albillo Mayor þar sem að Tinto Fino er í miklum meirihluta. Vínviðurinn er nokkuð vel til ára sinna kominn og vex hann allur í kalkkenndum og sendnum jarðvegi í nokkuð mikilli hæð, eða um 900 metra yfir sjávarmáli. Berin eru öll handtínd og fær vínið að dvelja í 18 mánuði í stórum 500 lítra eikartunnum áður en það fer á markað.
Vínið er með þéttann og rústrauðan lit sem gefur til kynna þétta byggingu vínsins. Ilmurinn heldur áfram á sömu línu og er hann nokkuð opinn þó svo að smá öndun mundi gera honum gott. Fljótlega kemur þéttur rauður ávöxtur í bland við ferskar og þurrkaðar kryddjurtir æðandi fram á sjónarsviðið. Þar næst kemur vottur af rauðum blómum, sveit, balsamik, appelsínuberki, steniefni og ljúfum kryddum sem setja punktinn yfir i-ið. Margslunginn og djúpur ilmur sem heldur áfram að gefa því lengur sem vínið dvelur í glasinu. Í munni er það bragðmikið en sýran afskaplega góð svo að jafnvægið haldist. Þykk en fínleg tannín virka eins og vel samsett beinagrind og heldur öllu þessu saman. Þetta er afskaplega búttað og mikið vín en engu að síður ljúffengt. Þetta er afar vandað vín og er ég handviss um að þetta eigi eftir að vaxa ásmeginn ef það fær nokkur ár við góðar aðstæður. Ef þolinmæðin fyrir geymslu er ekki til staðar mæli ég hiklaust með því að umhella víninu og leyfa því að opna sig í góðann hálftíma hið minnsta. Þetta er, eins og mörg vín frá Ribera del Duero, mikið matarvín og mæli ég með góðri ribeye steik en ég er viss um að grillað lamb muni líka ganga afskaplega vel með því.
Verð 4.990 kr