Chateau Capendu La Comelle 2019

Það hefur ekki verið mikið af vínum frá AOC Corbières, sem er eitt stærsta skilgreinda vínræktarsvæði Languedoc Roussillon í suðurhluta Frakklands, í boði í hillum Vínbúðanna og er það því afskaplega skemmtilegt af fá eitt slíkt til umfjöllunar. Paul Mas er rótgróinn og margverðlaunaður framleiðandi á því svæði og nær saga hans aftur til ársins 1892 þegar Auguste Mas keypti nokkra hektara af vínvið nálægt þorpinu St Pons de Mauschiens. Í dag eru vínekrur Paul Mas nær níunda hundrað og kaupir hann ávöxt af tvöfalt stærra svæði til að gefa ykkur hugmynd af stærðargráðunni. Chateau Capendu eignin hefur um tæpa 90 hektara af vínvið til umráða og er hún staðsett rétt hjá virkisbænum Carcasonne.

Þetta vín er blanda af Carignan (45%), Grenache (35%) og Syrah (20%) þar sem að Carignan vínviðurinn er allt frá 50 til 100 ára gamall. Vínið fær svo að dvelja í stórum eikartunnum í um 6 mánuði áður en það er sett á markað.

Vínið er rústrautt á litinn og með opinn og gríðarlega áhugaverðann ilm. Rauður ávöxtur sækir strax á mann en bakvið hann er hellingur af ferskum og þurrkuðum kryddjurtum sem fer með mann beinustu leið til Languedoc Roussillon. Eftir smá öndun koma fram blómlegir tónar, sveit og ávöxturinn verður ögn bjartari. Þetta er afskaplega skemmtilegur ilmur sem er stútfullur af Suður frönskum karakter. Í munni er það nokkuð bragðmikið en þó með ákveðinn léttleika sem kemur frá sýrunni og væri vínið líklega frekar þunglamalegt ef ekki væri fyrir hana. Ferskur rauður ávöxtur og kryddjurtir sem eru áberandi í löngu eftirbragði vínsins. Þetta er skothelt vín með grilluðu lambalæri, hörðum ostum eða kjötpottréttum. Mæli alveg með að kæla það aðeins, 16° væri tilvalið hitastig.

Verð 3.490 kr

You might be interested in …

Leave a Reply