Heimsókn frá Vinos Palacios

Það er afskaplega upplífgandi þegar víngerðarmenn eða fulltrúar vínhúsa gera sér leið til Íslands til að kynna framleiðslu sína fyrir þessum pínulitla markaði sem við erum hluti af. Hvort sem það sé merki um að víngerðarfólk geri ekki upp á milli markaða og sjá tækifæri á Íslandi eða hvort það sé einfaldlega vegna þess að þeim langi ofboðslega mikið að heimsækja landið skal ég ekki segja en svo lengi sem þau koma hingað er mér eiginlega alveg sama.

Fyrir stuttu kom hann Borja Larroca, sölustjóri Vinos Palacios, í heimsókn og kynnti víngerðirnar þrjár sem þau ráða yfir í Rioja og Ribera del Duero ásamt því að gefa okkur að smakka nokkur vín úr vörulínu þeirra. Vinos Palacios er frekar ung víngerð og er hún stofnuð árið 1999 af hinum ofvirka og kraftmikla Javier Palacios. Javier erfði Chorizo framleiðslu sem foreldrar hans höfðu sett á laggirnar þegar hann var ungur að aldri og er sú framleiðsla ein sú stærsta á Spáni í dag þó svo að Javier hafi selt fyrirtækið fyrir nokkru. Vínáhugi Javier hófst að hans sögn fyrir alvöru þegar hann fór í vínferð ásamt vinum til Búrgúndar og má segja að hann hafi fengið nokkurs konar hugljómun í þeirri ferð því hann kom tilbaka og fór strax að leita sér að vínekrum með einstöku terroir. Að lokum fann hann það sem er Bodegas Trus í Ribera del Duero og þar með hófst ævintýrið. Í dag eru víngerðirnar þrjár – Nivarius og Proelio í Rioja og Trus í Ribera del Duero.

Bodegas TRUS – Ribera del Duero

Bodegas Trus er víngerðin sem var upphafið að vínævintýri Javier Palacios. Honum þótti afskaplega skrítið, verandi frá Rioja, að byrja vínferilinn í Ribera del Duero en tækifærið sem honum bauðst var of gott til að sleppa. Trus er skammstöfun fyrir Terra, Roble, Uva og Sol (jörð, eik, þrúga og sól) sem var einmitt kveikjan að ævintýrinu – að framleiða vín sem væru verðugir fulltrúar upprunans. Vínekrur eignarinnar telja um 60 hektarar en þar að auki leigir víngerðin vel staðsettar vínekrur sem meðal annars liggja við hliðina á vínekrum Pingus, eitt af þekktustu og dýrustu víngerðum svæðisins. Að sögn Borja þá eru víngerðin stöðugt í baráttu við Pingus um að ná samningum um þessar ekrur um leið og þær losna.

Við fengum að smakka Bodegas Trus Reserva 2016 sem er algjörlega frábært vín og var stjarna kvöldsins. Gert úr 100% Tinta Fina del País (Tempranillo) sem kemur frá vínvið sem er frá 20 til 60 ára gamall af ekrum víngerðarinnar í Moradillo de Roa og liggja þær í um 8-900 metra hæð. Vínið fær að dvelja í 12 mánuði á notaðri amerískri og franskri eik og auka 24 mánuðum í flöskunni eins og reglur segja til um. 2016 var gríðarlega góður árgangur sem gaf af sér gjöful vín sem geta þroskast í fjölmörg ár en eru samt frábær á sínum yngri árum. Þetta er stórt og kraftmikið vín sem er dæmigert fyrir Ribera del Duero með dökkan ávöxt, balsamik, ljúfa eik og vel samofnum kryddkeim. Þetta er steikarvín svo ekki sé meira sagt sem er ennþá frekar ungt og gerir það mikið fyrir vínið að umhella því í u.þ.b. klukkustund. Flaskan er á 5.287 kr og má nálgast það hjá Vínvinum ehf. Algjörlega frábært vín og mæli ég eindregið með að grípa nokkur gler meðan að birgðir endast af þessum árgangi.

Proleio – Rioja

Proelio víngerðin er staðsett í Rioja í litlum bæ sem er steinsnar frá heimkynjum Javier. Eins og fyrr sagði þá leið honum eins og að hann væri að svíkja heimkyni sín með því að reka víngerð í Ribera del Duero og lagði hann því mikið kapp á að finna eign í Rioja til að kaupa. Þegar honum bauðst að kaupa La Asperilla sem liggur við bæinn Clavijo þurfti hann ekki að hugsa sig lengi um. Nafnið Proelio (bardagi á latínu) varð fyrir valinu á víngerðinni sem er vísun í sögulegan bardaga sem á að hafa átt sér stað við bæinn Clavio þar sem að Ramiro konungur mætti Márunum á 8. öld. Vínekrur Proelio liggja flestar í töluverðri hæð sem gefur vínunum ákveðna lyftingu og ferskleika og ásamt hóflegri tunnunotkun er óhætt að staðfesta að þetta eru gríðarlega aðgengileg og vel gerð vín sem missa þó engann veginn hinn dæmigerða Rioja persónuleika sem við Íslendingar elskum.

Við fengum að smakka Proelia Reserva 2017 sem má segja að sé einhvers konar “signature” vín víngerðarinnar. Vínið er dæmigerð blanda af Tempranillo (85%) og Garnacha (15%) og kemur ávöxturinn frá þremur af vínekrum víngerðarinnar, La Asperilla í Clavijo, Sonsierra og Alto Najerilla. Ekrurnar liggja allar í yfir 600m hæð sem kemur sér vel í heitu svæði eins og Rioja. Vínið fær að dvelja í 12 mánuði í eikartunnum (bæði amerískum, slóvenskum og frönskum) og aðra 15 mánuði í flöskunni eins og lög og reglur gera ráð fyrir. Það sem vekur áhuga er að engar af þessum tunnum eru nýjar sem gerir að verkum að jafnvægi vínsins er töluvert betra þar sem að eikartónarnir eru fínlegri. Þetta er gríðarlega vel gert vín sem plummaði sig afskaplega vel með öndinni sem við borðuðum með en það skal enginn segja mér að þetta passi ekki líka vel með lambi og góðu nautakjöti. Flaskan er á 3.519 kr og má nálgast það hjá Vínvinum ehf.

Nivarius – Rioja

Nivarius er hin víngerðin í Rioja, stofnuð árið 2009, og er hún merkileg fyrir margar sakir. Í fyrsta lagi er þetta eina víngerðin í Rioja sem framleiðir eingöngu hvítvín. Það eitt og sér var nóg til að kveikja áhuga hjá mér og eflaust fleirum. Þar er aðal stjarnan hin tilturlega nýfundna Tempranillo Blanco, sem var einungis uppgötvuð árið 1988 fyrir slysni og var hún endanlega samþykkt í Rioja árið 2007 þar sem hún er eingöngu ræktuð. En hin raunverulega perla í vöruúrvali Nivarius, að mínu mati, er hin afar sjaldgæfa Maturana Blanca sem var nokkurn veginn útdauð fyrir nokkrum árum en er heldur betur að rísa eins og fönix úr eldinum þessa dagana. Það sem er enn merkilegra er að fyrstu heimildir um þrúgur í Rioja eru um Maturana Blanca frá árinu 1622. Ekki Tempranillo eða Garnacha. Í dag eru samtals ræktaðir 120 hektarar af þessari þrúgu og ræður Nivarius yfir 35 af þeim. Því miður er einungis nokkrar flöskur af þessu frábæra víni sem rata til landsins en vonandi verður breyting á því. Einnig á víngerðin mikilvægar vínekrur með eldgömlum Viura vínvið sem, að sögn Borja, eru að gefa af sér gríðarlega spennandi vín.

Við fengum smakk af Nivarius Tempranillo Blanco 2021 sem er 100% Tempranillo Blanco. Ávöxturinn kemur frá ekrum Nivarius í Valle del Iregua, Laderas del Moncalvillo og Montes de Clavijo sem liggja allar í yfir 600 metra hæð og snúa að mestu leiti í norður. Vínið fær að dúsa í 4 mánuði “sur lie” eftir gerjun en fer ekki í eikartunnur til að leyfa einkennum þrúgunnar að skína. Þetta er frísklegt og mjög stílhreint vín sem á heima með góðum fiskréttum. Flaskan er á 2.794 kr og má nálgast það hjá Vínvinum ehf.

Einnig fengum við að smakka Lía Pet-Nat sem er, eins og nafnið gefur til kynna Pétillant Naturel – eða náttúrulega framleitt freyðivín. Hér er ekki stuðst við hina algengu Méthode Traditionelle heldur hina eldgömlu og enn hefðbundnari Méthode Ancestrale þar sem vínið fær að gerjast í tönkum og er svo sett í flöskur þar sem gerjun heldur svo áfram hægt og rólega. Þetta er gert úr 100% Garnacha og ólíkt flestum Pet-Nat þá er það ekki gruggugt. Liturinn er fölbleikur og dæmigerður jarðarberjailmur í bland við blómlega tóna gerir þetta afskaplega ljúft og bragðgott freyðivín. Flaskan er á 2.950 kr og má nálgast það hjá Vínvinum ehf.

You might be interested in …

Leave a Reply