Frakkland er stútfullt af ótrúlega vanmetunum vínræktarsvæðum sem öll eiga það sameiginlegt að framleiða frábær vín. Ég ætla ekki að ganga svo langt að segja að Sancerre sé vanmetið en mér finnst það þó ekki fá það lof sem það verðskuldar, sérstaklega hérlendis. Sancerre er þó eitt þekktasta vínræktarsvæði Loire dalsins þar sem eru framleidd einhver albestu hvítvín úr Sauvignon Blanc sem hægt er að fá.
Henri Bourgeaois er óneitanlega eitt af þekktustu nöfnum Sancerre, og jafnvel Loire dalsins ef út í það er farið. Víngerðin er staðsett í smábænum Chavignol, sem er vel þekktur fyrir hinn frábæra geitaost Crottin de Chavignol, og á víngerðin um 72 hektara af vínvið víðs vegar um Sancerre. Megnið af því er auðvitað Sauvignon Blanc en einnig er nokkuð ræktað af Pinot Noir, sem er gríðarlega vanmetin í Sancerre en ég mæli klárlega með að prófa ef þið komist í tæri við. Les Baronnes er að sjálfsögðu 100% Sauvignon Blanc og kemur frá ekrum víngerðarinnar sem liggja í hlíðunum í kringum Chavignol. Jarðvegurinn er blanda af kalkstein og leir sem gefur víninu fínt jafnvægi milli ferksleika og þéttleika. Það er látið gerjast í stáltönkum og fær svo að þroskast í um 5 mánuði “sur lie”.
Vínið er strágyllt á litinn. Ilmurinn er galopinn og tekur vel á móti þér með brakandi ferskum stikilsberjun, nýslegnu grasi, lime, sítrónuberki, bleiku greipi, blóðappelsínum, grænum og gulum eplum ásamt steinefnum á bakvið þetta. Mjög margslunginn og afskaplega dæmigerður Sauvignon Blanc ilmur og í raun nákvæmlega eins Sauvignon Blanc á að ilma, allavega fyrir mína parta. Í munni er það nokkuð lét og fínlegt, með góða sýra sem er þó ekki of áberandi eða skörp eins og vill oft gera með þessa þrúgu. Grösugir tónar ásamt stikilsberjum og sítrusávöxtum eru aftur áberandi og er fyllingin til fyrirmyndar. Jafnvægið er gott og endingin nokkuð löng. Ef þið viljið smakka alvöru Sauvignon Blanc þá get ég ekki mælt nógu mikið með þessu víni. Þetta er matarvín sem smellpassar auðvitað með geitaosti en á líka heima með með t.d. þorskhnökkum með hollandaise, eða allavega eitthvað í þá áttina.
Verð 4.699 kr