Marques de Murrieta Reserva 2018

Markgreifinn af Murrieta á sér afskaplega langa sögu og það má í raun með sanni segja að hér sé á ferð einn áhrifamesti vínframleiðandi Rioja héraðs og sem lagði grunninn að vínrækt í héraðina fyrir rúmum 170 árum. Fyrir rúmu ári síðan tók ég fyrir hinn frábæra 2016 árgang af þessu víni fyrir og var ég gríðarlega hrifinn af því og sagði meðal annars að það væri gjafaverð á þessu víni. Þó svo að skattahækkanir ríkisstjórnarinnar hafi orðið til þess að verðið hafi hækkað um nokkra hundraðkalla þá er ég enn sömu skoðunnar og er þessi 2018 árgangur engu síðri.

Vínið er sem fyrr blanda af Tempranillo, Graciano, Mazuelo og Garnacha og kemur ávöxturinn frá ekrum víngerðarinnar víðs vegar í Rioja. Það sem er þó ekki mikið auglýst er að á árum sem Murrieta framleiðir ekki flagskip víngerðarinnar, hið stórkostlega Castillo Ygay, þá fer ávöxturinn frá vínekrunum sem mundu annars fara í Ygay í m.a. þetta vín. Sem er einmitt tilfellið í þessu víni. Það er svo látið þroskast í amerískum eikartunnum í 21 mánuð áður en það kemur á markað.

Vínið er dimmrautt með smá brúnt í vöngum. Ilmurinn er galopinn og afskaplega einkennandi fyrir upprunann sinn. Dökk kirsuber, þroskuð jarðarber og plómur leika lausum hala í glasinu og með þeim eru mildir vanillu- og kókóstónar og ef vel er þefað þá er að finna smá jarðveg, vindlakassa og blómvönd þarna á bakvið. Þetta er ungur ilmur sem gefur góð fyrirheit um hvað koma skal með smá geymslu. Í munni er það nokkuð bragðmikið en þó ekki of kröftugt því að fínleikinn er algjörlega í fyrirúmi ásamt góðri sýru. Ávöxturinn og eikartónarnir eru gríðarlega vel samrunnir í bragði sem er ekkert annað en merki um frábæra víngerð. Eftirbragðið er langt og hangir það svolítið á eikinni. Ég er ekki frá því að þetta sé eitt allra besta Reserva vín frá Rioja sem er fáanlegt í vínbúðunum og þar fyrir utan og í raun algjör kjarakaup. Drekkið þetta með góðum kjötréttum.

Verð 4.398 kr

You might be interested in …

Leave a Reply