Gæðin frá Murrieta

Marques de Murrieta er vínframleiðandi sem þarf vonandi ekki að kynna fyrir mörgum þó svo að nærvera hans hafi verið minni en ætla skyldi á Íslandi. Fyrir ekki svo löngu hitti ég Gianluca Petruzzi, sölustjóra víngerðarinnar, sem fór yfir sögu þessa merkilega framleiðanda ásamt því að smakka magnaða vörulínu þeirra, bæði frá Rioja og Rias Baixas.

Murrieta var stofnað árið 1852 af Don Luciano Murrieta sem hafði verið búsettur í London á árunum áður þar sem hann komst á bragðið með að drekka Bordeaux vín, eða Claret eins og Bretinn kallar það. Hann varð afar hrifinn af því sem hann drakk og vildi ólmur vita meira um framleiðsluna. Áður enn hann hélt heim til Spánar kom hann því við í Bordeaux til að kynna sér aðferðir víngerðarmanna á svæðinu, eitthvað sem átti eftir að marka hans eigin framleiðslu um ókomin ár en einnig Rioja sem vínræktarhérað.

Don Luciano var af góðu fólki kominn og var gríðarlega vel tengdur. Við heimkomu fékk hann ágætis landareign að gjöf og ákvað að tileinka sér þessa visku sem hann hefði sankað að sér í Bordeaux og hefja framleiðslu á vínum með því markmiði að gera þau jafn eftirsótt og bestu vín Evrópu á þeim tíma. Hann nýtti sér aðferðir sem hann hafði lært í ræktun vínviðarins en byltingakenndasta breytingin fól í sér notkun á nýjum eikartunnum til að þroska vínin, eitthvað sem hann hefði lært í Bordeaux, en hann ákvað að nota amerískar eikartunnur og geyma vínið lengur en tíðkaðist á þeim tíma. Einnig lagði hann mikla áherslu á vínræktina sem var á þeim tíma ekki mikil í Rioja. Þar má segja að grundvöllurinn að Rioja vínum hafi verið lagður.

Árið 1871 var svo þýðingarmikið ár fyrir Don Luciano þar sem hann festi kaup á landareign og hóf að byggja sitt eigið chateau sem fékk nafið Chateau Ygay. Fyrirmyndin var fengin í Bordeaux og vildi hann heimfæra hugmyndina um Chateau sem væri umlukuð vínvið en eftir að víngerðin fengu athugasemd frá nágönnum sínum í Norðri um notkun orðsins Chateau var því breytt í Castillo Ygay. I kringum eignina liggja í dag um 40 hektarar af vínvið sem gefa af sér ávöxt sem fer í hið magnaða Castillo Ygay, flagskip Murrieta. Ári síðar var hann gerður af markgreifa og varð því Marques de Murrieta. Hann eignaðist aldrei börn og því skiptist víngerðin milli fjölskyldumeðlima eins og lög gerðu ráð fyrir en árið 1983 seldi fjölskyldan víngerðina og er hún í dag í eigu Cebrián-Sagarriga fjölskyldunnar þar sem önnur kynslóð hennar er við stjórnvölin.

Vínekrur Murrieta sem eru nýttar fyrir flagskipið, Castillo Ygay

Árið 1991 hóf svo Cebrián-Sagarriga fjölskyldan að rækta vínvið í kringum landareign sína Pazo Barrantes í Salnés dalnum í hjarta Rias Baixas þar sem framleiðslan fylgir sömu grundvallar hugmyndum Murrieta, að framleiða vín sem eru lýsandi fyrir sitt terroir. Eignin telur um 12 hektarar af vínvið sem, ótrúlegt en satt, er ein stærsta eignin í Rias Baixas þegar talað er um land undir vínvið. Á síðstu árum hefur víngerðin verið, hægt og rólega, að láta reyna á getu Albarinho þrúguna til þess að framleiða vín sem þroskast glæsilega og virðist það vera að heppnast svona líka skínandi vel, því Pazo Barrantes Albariño er eitt af margslungnari Albariño vínum sem ég hef smakkað.

Í dag á víngerðin 300 hektara af vínvið víðsvegar um Rioja en megnið af þeim eru í Rioja Alta. Þessir hektarar skaffar víngerðinni allan ávöxt sem þau nota í framleiðslunni sem gerir það að verkum að þau hafa fulla stjórn á gæðunum í vínekrunum og þar af leiðandi fulla stjórn á öllum þáttum framleiðslunnar. Það skilar sér með afgerandi hætti í öllum vínum Murrieta þar sem hvert einasta vín sem voru smökkuð voru gæðin uppmáluð. En þetta vissi ég alveg og ekkert sem kom mér á óvart þar. Flagskipin Castillo Ygay og Dalmau eru hreint út sagt frábær vín og reservan frá þeim er mögulega eitt besta Rioja Reserva sem fæst í vínbúðunum, að öllum öðrum ólöstuðum.

Pazo Barrantes Albariño 2019
100% Albariño. Ferskur og míneralskur ilmur í fyrstu en tekur breytingum eftir smá öndun og opnast upp á gatt. Margslungið og alvörugefið Albariño með glás af frísklegum sem og þroskuðum ávöxtum.
Marques de Murrieta Primer Rosé  2021
100% Mazuelo. Fölbleikt og líkist meira rósavíni frá Provence en dæmigerðu Rioja rósavíni. Ilmríkt með ferskann ilm af rauðum berjum. Gott boddí, fínn fersleiki og fínlegur karakter. Skemmtilegt rósavín.
Capellania Viura 2017
100% Viura af gömlum vínvið. Þroskað í 22 mánuði í frönskum eikartunnum sem gefur víninu þykkt og mikið yfirbragð. Gul epli, appelsínur, smjör og bakkelsi í nefi en öllu ferksara í munni með ákveðinn elegans. Fyrirferðamikið vín en afskaplega vel gert.
Marques de Murrieta Reserva 2018
Blanda af Tempranillo, Graciano, Mazuelo og Garnacha þar sem Tempranillo er í miklum meirihluta. Dæmigerður Rioja ilmur með dökk ber, kryddaða tóna, vanillu, balsamik og vindlakassa. Fágað í munni með gott jafnvægi og langa endingu. Topp Reserva.
Marques de Murrieta Gran Reserva  2015
Sama blanda af þrúgum og Resrevan en í öðrum hlutföllum, Tempranillo þó í meirihluta. Fágaður ilmur af þroskuðum dökkum berjum í bland við balsamik- og kryddtóna og nettum jarðvegi í bakgrunni. Glæsilegt í munni með frábæra lengd.
Dalmau 2019
Nýjasti árgangur af þessum villingi sem inniheldur Cabernet Sauvignon. Topp árgangur og sá fyrsti sem er framleiddur í nýju víngerðinni. Stórt og kraftmikið vín sem þarf svo sannarlega tíma til að ná sér saman. Eftir langa umhellingu kom fram frábær ávöxturinn ásamt glás af eik, kryddi og vanillu. Mögnuð bygging og stór karakter. Væri til í að smakka þetta eftir 10 ár.
Castillo Ygay 2011
84% Tempranillo og 16% Mazuelo og kemur ávöxturinn einungis frá bestu ekrum víngerðarinnar og einungis gert á framúrskarandi árum og bara ef hið framúrskarandi ár gefur af sér vín með Ygay karakter. 28 mánuðir á eikartunnum og nokkur ár í flöskunni. Magnaður og margslunginn ilmur sem er auðvelt að gleyma sér í. Bragðmikið, flókið, gómsætt og bjart. Algjörlega stórkostlegt vín.

You might be interested in …

1 Comment

Leave a Reply