Enn halda heimsóknirnar áfram og fyrir stuttu fengum við þann heiður að eiga kvöldstund á La Primavera með Giuseppe Vajra, syni Aldo Vajra sem er stofnandi G.D. Vajra. Leifur Kolbeinsson á La Primavera setti saman matseðil í samstarfi við Giuseppe sem var svo paraður með vínum víngerðarinnar. Það þarf varla að taka það fram að þessi kvöldstund var frábær enda maturinn á La Primavera með þeim betri á landinu, þó víðar væri leitað, og vínin frá Vajra algjörlega frábær. Ekki skemmdi svo félagsskapurinn fyrir því að Giuseppe er auðmýktin uppmáluð og er með allt öðruvísi sýn á vín og reyndar lífið sjálft heldur en við flest.

Smá um G.D. Vajra
Vaira fjölskyldan hefur ræktað vínvið og ýmislegt annað í Barolo síðan 1880 og þar á meðal hina stórkostlegu ekru Bricco delle Viole, sem er ein hæsta ekra Barolo. Hluti af fjölskyldunni fluttist til Torino í leit að nútímalegra lífi á sama tíma og pólitískur óróleiki var nokkur á Ítalíu og algengt að fólk á öllum aldri úr flestum stéttum enfdu til mótmæla. Einn daginn ákvað hinn 15 ára Aldo Vaira einmitt að taka þátt í mótmælum í Torino í staðinn fyrir að mæta í skóla sem endaði með því að faðir hans, Giuseppe Domenicus (G.D.) stóð hann að verki. Hann var alls ekki sáttur við strákinn sinn og ákvað að senda hann í sveit til afa síns í Langhe til þess að kenna honum lexíu. Þar kynntist Aldo landbúnaði og fann hann strax áhugann kvikna og ekki leið á löngu þar til að hann var búinn að stofna víngerðina G.D. Vajra. Áhugi hans á landbúnaði endaði þó ekki á hefðbundnum landbúnaði þess tíma þar sem að alls konar eitur var notað til að gera gróðrinum auðveldara fyrir, heldur hóf hann í leyni að kynna sér kenningar Rudolph Steiner um bíódínamíska ræktun sem og aðrar sem studdu lífræna ræktun og verndun vistkerfa. Árið 1971 tilenkaði hann sér þann lærdóm og hóf að vinna vínekrur sínar á lífrænan og sjálfbæran hátt, fyrstur víngerða í Peidmonte, og þótti hann ýmist furðufugl eða ansi djarfur. Í dag eru allir 40 hektarar víngerðarinnar lífrænt ræktaðir og auk þess er passað vel upp á fjölbreytileikanum á ekrunum og eru alls konar tré, plöntur, blóm og gras látið vaxa í kringum ekrurnar til að efla náttúrulegar varnir vínviðsins.
Vínin frá Vajra hafa verið auðfáanleg hér á Íslandi en af einhverjum ástæðum flogið dálítið undir radarnum. Sem dæmi um það má nefna að aðeins er hægt að fá hið frábæra Dolcetto d’Alba í vínbúðunum, sem ég mæli með að allir prófi. Vonandi sjá ráðamenn þjóðarinnar ljósið og leyfa netverslun á áfengi sem mundi galopna markaðinn og t.d. verða til þess að hægt væri að nálgast nánast öll vín frá Vajra í gegnum netsölu. Sjáum til með það.
Vajra X La Primavera

Aftur að kvöldstundinni. Leifur og Giuseppe voru búnir að ráða ráðum sínum og settu saman matseðil til að bjóða með vínunum frá Vajra. Auðvitað voru matarhefðir Piedmonte héraðs hafðar í fyrirrúmi þó svo að sígildari réttir hafi einnig ratað á seðilinn.
Forrétturinn samanstóð af hvítum aspas í smjörsósu með silungahrognum yfir og var það parað saman við hin frábæru Vajra Riesling 2021 og Luigi Baudana Dragon 2022. Silungahrognin gáfu réttinum skemmtilega seltu á móti hinu búttaða smjöri í sósuni og virkaði þetta alveg gríðarlega vel með Rieslinginu.
Næst kom dæmigerður pastaréttur frá Piedmonte, Tajarin, sem var borinn fram með salvíu, sítrónu og heslihnetum. Virkilega góður og saðsamur réttur þar sem sítrónan lyfti annars þungum rétti aðeins upp. Með þessu var boðið upp a hið geggjaða Vajra Dolcetto d’Alba sem smellpassaði með réttinum.
Aðalrétturinn var fullkomnlega elduð nautalund ásamt seljurótarmauki og soðsósu. Valið á víni var væntanlega frekar auðvelt enda Barolo tilvalið með góðu nauti. Eina flækjan hefur væntanlega verið hvort ætti að para hið nútímalega Albe 2016 eða hið klassískara Costa di Rose 2018. Sem betur fer var rétt ákvörðun tekin um að gera ekki upp á milli og hafa bara bæði vínin.
Til að kóróna frábæran matseðil var borið fram frábært panna cotta og með því hið frábæra Moscato d’Asti 2022 sem að mínu mati kemst nálægt því að vera hið fullkomna eftirréttarvín.
