Fyrir stuttu fengum við heimsókn frá Oscar Urrutia, sölustjóra Bodegas Olarra, sem fór með okkur í smá ferðalag um sögu víngerðarinnar og vínekrur þess og að lokum fengum við að smakka brot af framleiðslunni. Áherslan var auðvitað á Cerro Añon línuna sem hefur notið nokurra vinsælda hér á landi en einnig fengum við að smakka vín frá nýlegri víngerð þeirra í Ribera del Duero, Valcozar – en meira um það síðar.
Smá um Bodegas Olarra
Bodegas Olarra var sett á laggirnar árið 1973 af Olarra fjölskyldunni frá San Sebastian sem hafði efnast vel á stáliðnaði. Þeim langaði að færa út kvíarnar og höfðu haft auga í vínframleiðslu um nokkurt skeið. Það var þó ekki sjálfsagt skref því þekkingin á víniðnaðinum var enginn en þegar maður á fullt af seðlum er allt hægt og ákváðu þau því að fá til sín færustu einstaklinga á sínu sviði til að byggja upp víngerðina. Land var keypt nálægt Logrono í Rioja og var arkítektinn Juan Antonio Ridruejo fenginn til að teikna nýja og glæsilega víngerð, sem var fyrsta sinnar tegundar á Spáni og stenst hönnun hennar ennþá tímans tönn.
En það var ekki nóg að fá til sín einn þekktasta arkítekt Spánar til að gera glæsilega byggingu því einhver þurfti að búa til vínið. Þar var fenginn enginn annar en Ezequiel Garcia, einn færasti víngerðarmaður Rioja héraðs – þó víðar væri leitað. El Brujo, töframaðurinn, eins og hann var kallaður, fékk algjörlega frjálsar hendur til að búa til víngerð sem mundi tylla sér meðal þeirra bestu í Rioja. Hann starfaði fyrir Olarra fjölskylduna fram á síðasta dag ævinnar og má vel segja að honum hafi tekist vel til.
Í dag á Olarra fjölskyldan, auk Bodegas Olarra, víngerðina Bodeags Ondarre í austurhluta Rioja, Casa del Valle í La Mancha og svo loks Altos de Valdoso í Ribera del Duero.


Cerro Añon Crianza 2020
Opið í nefi með glás af rauðum berjum í bland við mjög hógværa eikartóna, létt krydd og steinefni. Kirsuber, jarðarber, vanilla og kaffi. Nokkuð bragðmikið en engann veginn kröftugt, auðveld tannín og góð sýra. Frekar einfalt vín en virkilega aðgengilegt og auðdrekkanlegt. Vín sem ætti að höfða til margra. 87/100
Cerro Añon Reserva 2018
Ilmríkt og mjög dæmigert fyrir uppruna sinn. Dökkur ávöxtur í bland við vel stillta eikartóna og dassi af mildum kryddum. Bragðmikið og milt í munni með nokkuð áberandi tannín sem gefur þessu meiri sjens með mat. Langt eftirbragð hangir á ljúfum eikartónum. Virkilega gott Reserva. 90/100
Cerro Añon Gran Reserva 2015
Opið og afar ilmríkt með áhersluna á eikartónum og er ávöxturinn mun þroskaðari. Plómur, dökk kirsuber, fjólur, vanilla, kókos, kaffi, dökkt súkkulaði og margt fleira gerir þetta vín afskaplega aðlaðandi og margslungið. Gott boddí og silkimjúk tannín í munni og þrátt fyrir góðan aldur er það furðu ungt. Virkilega skemmtilegt vín frá frábæru ári. 92/100