Chateau Siran 2016

Þrúgur
45% Cabernet Sauvignon
44% Merlot
10% Petit Verdot
1% Cabernet Franc
Uppruni
Margaux, Bordeaux, Frakkland

Um vínið
Vínið er afskaplega sígild Bordeaux blanda með um það bil jöfn hlutföll af Cabernet Sauvignon og Merlot ásamt 10% Petit Verdot og skvettu af Cabernet Franc, en á síðari árum hefur hlutfall Petit Verdot aukist sem Edouard segir gríðarlega spennandi fyrir vínið. Að hans sögn er það rúsínan í pylsuendanum og gefur það víninu meiri elegans ásamt “dass af pipar”. Margir þekktir ráðgjafar hafa unnið með Siran í gegnum árin og má þar sem dæmi nefna súperstjörnuna Michel Rolland, en síðan 2015 hefur Hubert de Bouard, eigandi Chateau Angelus, verið aðal víngerðarráðgjafi Siran og eru flestir sammála því að Siran hafi aldrei verið betri síðan hann kom að víngerðinni. Vínið fær að liggja í 12 mánuði í eikartunnum, helmingurinn af þeim nýjar franskar eikartunnur.

Vínið er dimmrautt á litinn með fjólubláum tón, enn frekar unglegt að sjá. Ilmurinn er smá tilbaka í byrjun, sem kemur ekkert á óvart þar sem að 6 ár er ekki mikið fyrir svona vín, en það opnast þó fljótlega með dæmigerðum Margaux karakter. Sólber, blárber, krækiber, leður, ferskt tóbak, bökunarkrydd, kaffi og dökkt súkkulaði mynda margslunginn og frábærann ilminn sem opnast meira og meira með hverri þyrlun. Það er miðlungsbragðmikið í munni með nokkuð fínleg tannín og góða sýru til að byggja grunninn á. Þetta er ungt og frekar margslungið vín sem á eftir að verða ennþá betra eftir 5-10 ár.
Ef þú nennir ekki að bíða þann tíma þá mæli ég eindregið með að umhella þessum víni í 1-2 tíma til að leyfa víninu að opna sig almennilega.

Matarpörun
Svona stórt og bragðmikið vín kallar á bragðmikla rétti og eru augljósi kosturinn nautasteik. Vínið fer hins vegar líka vel með lambakjöti og ef það er komið með nokkur ár undir beltið er þetta frábær félagsskapur með andabringum að ógleymdum hörðum ostum.

Víngerðin
Chateau Siran er staðsett sunnarlega innan hins skilgreinda vínræktarsvæðis Margaux, um 45 mínútur frá Bordeaux borg. Chateau-ið dregur nafn sitt af Guilhem de Siran sem eignaðist landið þar sem víngerðin stendur í dag á 15. öld en það var ekki fyrr en um 200 árum seinna sem var farið að framleiða vín þar, menn eitthvað lengi að kveikja á perunni. Chateau Siran hefur verið í eigu margra síðan vínframleiðsla hófst þar og má sem dæmi nefna hina þekktu Toulouse Lautrec fjöslkyldy sem meðal annars ól af sér einn þekktasta listamann Frakklands, Henri Toulouse Lautrec. Árið 1859 eignaðist svo Miaihle fjölskyldan chateau-ið og er Edouard Miaihle sjötti ættliður fjölskyldunnar sem stýrir framleiðslunnni í dag, ásamt konunni sinni Séverine.

Hérna fyrir neðan má sjá skemmtilegt og nokkuð nördalegt spjall við Edouard Miaihle um víngerðina, vínið og margt fleira,

You might be interested in …

Leave a ReplyCancel reply

Discover more from Vínsíðurnar

Subscribe now to keep reading and get access to the full archive.

Continue reading